NÝR FERÐARISI Á ÍSLANDI
Samkeppniseftirlitinu var þann 16. febrúar tilkynnt um fyrirhuguð kaup BBL 144 ehf. (hér eftir „BBL“) og Eldeyjar Holding ehf. (hér eftir „Eldey HoldCo“) og fl. á hlutafé í Eldey TLH hf. Arcanum Fjallaleiðsögumönnum ehf. og Logakór ehf., sbr. meðfylgjandi samrunaskrá. BBL er einkahlutafélag sem sérstaklega var stofnað í tengslum við viðskiptin til þess að kaupa allt hlutafé í Kynnisferðum og Eldey auk þess að kaupa minniháttar hlut beint í Arcanum og Logakór. Jón Benediktsson er stjórnarformaður BBL ehf.
Um er að ræða samruna fyrirtækja sem eru máttarstólpar í ferðaþjónustu á Íslandi :
Kynnisferðir
Kynnisferðir ehf. er eignarhaldsfélag um hluti í Ferðaskrifstofu Kynnisferða, Hópbifreiðum Kynnisferða ehf., Bílaleigu Kynnisferða ehf., Almenningsvögnum Kynnisferða ehf., Garðakletti ehf., Klettagörðum 12 ehf. og Umferðarmiðstöðinni ehf. Félagið rekur eigin söluvef og býður upp á fjölbreytt úrval styttri dagsferða með rútu um vinsæl svæði eins og t.d. Gullna hringinn og Bláa lónið.
Auk framangreinds býður Ferðaskrifstofa Kynnisferða upp á akstur á milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar („FLE“) undir merkinu Flugrútan og Flybus. Almenningsvagnar Kynnisferða ehf. eiga um 50 strætisvagna og sjá um viðhald og rekstur þeirra. Félagið sinnir akstri á 11 leiðum fyrir Strætó bs á höfuðborgarsvæðinu. Garðaklettur á sex dráttarbíla og sinnir akstri fyrir Eimskip
Arcanum
Arcanum selur jöklagöngur, ísklifur og vélsleðaferðir upp á Sólheima- og Mýrdalsjökul frá starfsstöð sinni á Sólheimasandi. Auk þessa býður félagið upp á jöklagöngu á Öræfajökul frá Skaftafelli. Félagið selur einnig fjórhjólaferðir og akstur á Sólheimasandi. Þá eru farnar dags- og lengri ferðir frá Reykjavík. Félagið hefur t.a.m. boðið upp á gönguferðir um Laugaveginn. Til viðbótar við rekstur félagsins hérlendis á það og rekur gistiaðstöðu fyrir farþega og starfsmenn félagsins í Kulusuk á Grænlandi. Þaðan gerir félagið m.a. út lengri gönguferðir. Arcanum selur ferðir sínar bæði á eigin sölusíðu og með milligöngu sölutorga, líkt og Guide to Iceland og Viator.
Dive
Félagið býður upp á yfirborðs- og köfunarferðir, auk þurrbúnings- og köfunarnámskeiða. Aðalstarfsvettvangur félagsins er í Silfru á Þingvöllum, en það selur einnig köfunar- og yfirborðsköfunarferðir í Kleifarvatni og sérstakar einkaferðir á aðra áhugaverða köfunarstaði hérlendis. Langstærstur hluti af bókunum félagsins fer fram í gegnum eigin heimasíðu, en lítill hluti fer fram með milligöngu annarra ferðaskrifstofa.
Félagið á 50% í Basecamp Iceland ehf., sem hóf rekstur skömmu áður en ferðatakmarkanir tóku gildi. Það rekur m.a. Aurora Basecamp, norðurljósasýningu og fræðslusetur staðsett á horni Krýsuvíkurvegar og Bláfjallaafleggjara. [Trúnaðarmál]. Að þessu virtu telja samrunaaðilar að starfsemi Dive og Basecamp Iceland fari að mestu fram á markaði fyrir heild- og smásölu skipulagðra ferða hérlendis.
Logakór
Félagið er fasteignafélag, sem selur enga þjónustu til ferðamanna. Félagið leigir einungis fasteignir til annarra félaga innan samstæðu Eldeyjar. Það á landið að Ytri Sólheimum 1a, og því fylgir 51% hlutur í óskiptu landi sem nær frá jaðri Sólheimajökuls og niður að sjó. Á því er m.a. flak Douglas DC-3 flugvélarinnar, sem er vinsæll áfangastaður meðal ferðamanna. [Trúnaðarmál]. Þar sem félagið hyggst ekki þjónusta ferðamenn verður ekki gerð nánari grein fyrir starfsemi þess.
Norðursigling
Norðursigling rekur hvalaskoðun frá Húsavík og Hjalteyri, auk þess sem það gerir út ferðir í Scoresbysund á Grænlandi. Skipafloti félagsins telur 10 skip bæði eikarskip og seglskútur. Norðursigling á veitingastaðina Gamla Bauk og Hvalbak á Húsavík en rekstur þeirra hefur verið leigður út frá mars 2019.
Samrunaaðilar telja að starfsemi Norðursiglingar fari fram á markaði fyrir heild- og smásölu skipulagðra ferða hérlendis.
Félagið á einnig 50% hlut í Húsavík Adventures ehf. Norðursigling fer með sameiginleg yfirráð yfir Húsavík Adventures með Veigar ehf. og Austmar ehf. á grundvelli hluthafasamkomulags.
Íslenskar Heilsulindir
Íslenskar Heilsulindir ehf. er einkahlutafélag sem stofnað var árið 2007. Megintilgangur þess eru fjárfestingar, ásamt þróun og uppbyggingu náttúrubaðaðstaða. Íslenskar Heilsulindir ehf. er fyrir samrunann í eigu Eldeyjar (20%), ITF I slhf. (20%) og Bláa Lónsins hf. (60%). Ekki verður breyting á yfirráðum yfir Íslenskum Heilsulindum með kaupum BBL á 20% hlut í félaginu af Eldey og því verður ekki fjallað frekar um félagið í þessari tilkynningu.
Kaup BBL 144 ehf. og Eldeyjar Holding ehf. og fl. á hlutafé í Eldey TLH ehf., Arcanum Fjallaleiðsögumönnum ehf. og Logakór
Tilgangur Eldeyjar HoldCo er fyrst og fremst að halda á hlutum í BBL í kjölfar viðskiptanna en auk þess mun Eldey HoldCo halda á hlutum í Norðursiglingu hf. og tilteknum skuldabréfum og öðrum kröfuréttindum á hendur núverandi dótturfélögum Eldeyjar. Eldey HoldCo er í eigu fimm lífeyrissjóða, Íslandsbanka hf., Íslenskrar fjárfestingar ehf. og annarra fjárfesta sem fjárfestu í félaginu í gegnum einkabankaþjónustu Íslandsbanka hf.
Samkeppniseftirlitið hefur það hlutverk samkvæmt samkeppnislögum að rannsaka samruna og ber í því sambandi að leggja mat á það hvort samruni fyrirtækja raski samkeppni með umtalsverðum hætti og skaði þar með hagsmuni almennings eða atvinnulífs. Við mat á áhrifum samruna aflar Samkeppniseftirlitið gagna frá aðilum sem eftir atvikum geta verið viðskiptavinir eða keppinautar samrunaaðila, eða tengst mörkuðum málsins á einhvern annan hátt.
Samkeppniseftirlitið veitir hér með þeim sem telja sig hafa hagsmuna að gæta vegna samrunans færi á því að koma að sjónarmiðum vegna hans. Þess er óskað að umsagnir vegna samrunans berist eigi síðar en kl. 16:00, þann 16. mars nk. á netfangið aldis.s.bjarnhedinsdottir@samkeppni.is.