Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tvær konur, Bruna Muniz Da Silva og Anne Thayssa Domingues Santana O Menezes, hvora fyrir sig í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir innflutning á samtals 3,6 kílóum kílóum af kókaíni til Íslands.
Samkvæmt dómnum fluttu þær alls 3.609,75 grömm af kókaíni til landsins í flugi frá Barcelona til Keflavíkurflugvallar aðfaranótt 25. nóvember 2024. Muniz Da Silva var með 1.504,92 grömm af kókaíni og Domingues Santana O Menezes var með 2.104,83 grömm. Fíkniefnin voru falin innanklæða.
Játa ákæruna eftir upphaf aðalmeðferðar
Við þingfestingu málsins játuðu konurnar þann hluta ákærunnar sem laut að innflutningi efnanna en neituðu að þær hefðu starfað saman að þessu. Hins vegar gengust þær við samverknaði við upphaf aðalmeðferðar.
Dómurinn byggðist á því að konurnar hefðu starfað saman að innflutningnum og að ætlunin hafi verið að dreifa efnunum hér á landi í hagnaðarskyni. Konurnar voru félagar og ferðuðust saman frá Brasilíu til Spánar og þaðan til Íslands. Samkvæmt framburði þeirra fengu þær 1.500 evrur hvor fyrir að flytja efnin.
Lægri refsing vegna játningar
Héraðssaksóknari gerði þá kröfu að þær væru hvor fyrir sig dæmdar í allt að fimm ára og fjögura mánaða fangelsi, en dómurinn ákvað að refsing skyldi vera lægri vegna greiðrar játningar og samvinnu við rannsókn.
Ákærðu Bruna Muniz Da Silva og Anne Thayssa Domingues Santana O Menezes sæti hvor fyrir sig fangelsi í þrjú ár og sex mánuði
Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald þeirra frá 25. nóvember 2024. Auk þess að fíkniefnin væru gerð upptæk.
Konurnar voru jafnframt dæmdar til að greiða samtals 807.160 krónur í sakarkostnað, auk þess sem hvor um sig þarf að standa straum af málsvarnarlaunum verjenda sinna, sem ná samtals 1.941.840 krónum.