TF-EIR, TF-GRO, séraðgerðasveit á varðbátnum Óðni og eftirlitsflugvélin TF-SIF hafa sinnt útköllum í dag
Áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sótti slasaðan sjómann um borð í togara sem staddur var um 20 sjómílur suður af Krísuvíkurbergi í dag. TF-EIR var komin að togaranum um hádegisbil og hífingar gengu vel. Sigmanni var slakað niður í togarann og var skipverjinn hífður um borð í þyrluna skömmu síðar. Að hífingum loknum var flogið á Reykjavíkurflugvöll þar sem sjúkrabíll beið hins slasaða.
Þrátt fyrir að ekki sé grunur um COVID-19 smit fara áhafnir Landhelgisgæslunnar að öllu með gát og verja sig fyrir smiti með andlitsmöskum og hönskum eins og sjá má. Meðfylgjandi myndir tók áhöfnin á togaranum meðan hífingarnar fóru fram.
Leitað við Álftanes
Jafnframt hafa tvær af þyrlum Landhelgisgæslunnar, séraðgerðasveit LHG á varðbátnum Óðni og áhöfnin á eftirlitsflugvélinni TF-SIF leitað að ungri konu sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir í morgun. Bæði var leitað snemma í morgun og eftir hádegi. Þar sem þyrlur, flugvél og varðbátur Landhelgisgæslunnar hafa sinnt útköllum í dag hefur töluvert álag verið á stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð.
https://gamli.frettatiminn.is/logreglan-lysir-eftir-sondru-lif-thorarinsdottur-27-ara/