Mér var sérstakur vandi á höndum þessa vikuna
Fyrst ætlaði ég að skrifa um markmið loftslagsráðherra Sjálfstæðisflokksins um bann við nýskráningu bensín- og díselbíla sem breytist eftir því við hvern ráðherrann er að tala hverju sinni. Það er auðvitað brekka að fara gegn almennri skynsemi í þágu markmiða Vinstri grænna.
Svo ætlaði ég að skrifa um úrkynjuðu skuldabréfin sem sitjandi fjármálaráðherra var að selja og bera vott um mestu sýndarmennsku seinni tíma. Líka öllu alvarlegra að það var fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún, sem hóf þá vegferð.
Því næst langaði mig, enn og aftur, að rekja tímalínu við setningu gildandi útlendingalaga en dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins gerði tilraun til þess að herma þau lög upp á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í hlaðvarpi um daginn. Ekkert er eins fjarri lagi eins og hefur þegar komið fram.
En þá að málefni vikunnar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra til tveggja ára, ræddi við mbl.is á dögunum um mikilvægi þess að Sjálfstæðisflokkurinn drægi úr vinstri áherslum sínum sem hafa verið viðvarandi á þessu kjörtímabili og því síðasta, í hartnær sjö ár. Viðtalið var tilkomið vegna mælingar Maskínu á fylgi flokka, sem ráðherranum þótti ekki koma vel út.
Það sem hins vegar vakti athygli mína var þegar ráðherrann sagði orðrétt: „ Staðan er líka þannig núna að fólk hefur vaknað til lífsins gagnvart þeim vanda sem ég benti ítrekað á sem dómsmálaráðherra um stöðuna í útlendingamálum. ” Ráðherrann hélt áfram og sagði að enginn flokkur hefði stutt mál hennar í þessum efnum en þau hefðu nú náð fram að ganga sem yrði að teljast mikill árangur.
Mig rak í rogastans, minnugur þess að iðulega hafi þingflokkur Miðflokksins staðið blóðugur upp að öxlum, oft aleinn í umræðu um stöðu þessara mála, á þeim tíma sem ráðherrann vísar til. Og satt best að segja voru ekki sterkar minningar tengdar afgerandi framgöngu ráðherrans í útlendingamálunum þegar hún sat í því embætti.
Alþingisvefurinn segir frá því að ráðherrann hafi endurflutt mál fyrri ráðherra tvisvar á tíma sínum í ráðuneytinu, í bæði skiptin dóu málin í nefnd og komust ekki einu sinni til annarrar umræðu – slíkur var þrýstingur ráðherrans á að ná þeim í gegn.
Einhverjir kynnu við þetta tilefni að rifja upp orð ráðherrans í garð samflokksmanns þar sem hún sagðist skammast sín fyrir að vera í flokki með þingmanni sem lýsti áhyggjum af þróun mála í útlendingamálum.
En það er ánægjulegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé vaknaður til lífsins hvað útlendingamálin varðar, en við skulum nálgast söguna eins og hún raunverulega er. Að öðrum kosti verður það ekki bara sjálfstraustið sem verður farið heldur trúverðugleiki sömuleiðis.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins.