Gylfi Viðar Ægisson var jarðsunginn þann 8. ágúst síðastliðinn og mig langar að minnast hans í nokkrum orðum

Gylfi Viðar Ægisson var engum líkur. Okkar fyrstu samskipti voru í gegnum störf mín í blaðamennsku og strax þróaðist með okkur góður kunningskapur. Í gegnum samtöl okkar áttaði ég mig á því að lífshlaupi Gylfa þyrfti að gera betri skil. Röð atvika réð því að á júníkvöldi sumarið 2009 var ég mættur heim til Gylfa sem þá bjó í Keflavík ásamt hundinum Trítla.
Þrátt fyrir að vera mikill hundamaður stóð mér verulegur stuggur af Trítla sem var enginn trítill heldur agalaus, geðvondur þýskur fjárhundur. Gylfi skríkti af hlátri yfir ótta mínum og lokaði hundinn inni í herbergi svo við gætum hafist handa. Gylfi hafði nefnilega ákveðið treysta mér fyrir því verkefni að koma endurminningum sínum á prent og erindi mitt til Keflavíkur var að hefja þá vinnu.
Þessi fyrsti fundur okkar stóð til rúmlega þrjú um nóttina. Gylfi dældi út úr sér gullmolunum milli þess sem hann hastaði á hundinn sem vældi inni í herbergi. „Trítli, nóttin!“
Ég áttaði mig strax á því að ég væri með stórkostlegt efni í höndunum. Gylfi var tilbúinn að láta allt flakka þó margt væri neyðarlegt og sársaukafullt fyrir hann að rifja upp. Sögurnar voru lika magnaðar. Sögur af sjómennsku, fylleríi, slagsmálum og kvennafari í bland við erfið augnablik frá hinum ýmsu æviskeiðum. Rokk og ról. Mikil velgengi og algert hrun. Hvernig hann stóð með fólki, og hvernig hann brást fólki algerlega.
Hann talaði um lífið á æskuheimilinu sem einkenndist af hlýju og umhyggju meðan faðir hans var ekki í landi og móðir hans sá ein um heimilið. Þegar faðir hans kom svo í land hélt hann heimilinu í gíslingu með drykkju og harðræði. Algerar öfgar í sitthvora áttina sem höfðu tvímælalaust áhrif á það hvernig Gylfi þroskaðist sem einstaklingur.
Gylfi var ótrúlegur sögumaður og kunni sögurnar úr lífi sínu vel en hvenær atburðir gerðust var undir mér að komast að. Eiginlega var það mesta vinnan sem tengdist verkefninu því stundum skeikaði Gylfa um hàtt í áratug. Bókin rokseldist og fékk frábæra dóma. Við Gylfi gengum báðir sáttir frá verkefninu, ekki lengur kunningjar heldur vinir.
Samveran með Gylfa varð til þess að ég lærði alla hans takta, raddblæ og orðaforða. Þegar við fórum saman í viðtöl til að kynna bókina sagði Gylfi alltaf „Þú verður svo að herma eftir mér,” og svo hló hann sínum einstaklega skræka og skemmtilega hlátri.
Það brá aldrei skugga á vináttu okkar Gylfa þó djúp gjá hafi myndast milli skoðana okkar í seinni tíð og hans orðræða og atferli yrðu gjarnan að uppistandsefni í mínum fórum. Raunar sagði hann mér oft að ég hreinlega mætti ekki hætta að herma eftir honum. Gylfi hafði nefnilega alltaf mikinn — ef ekki mestan — húmor fyrir sjálfum sér.
Síðustu árin vorum við Gylfi í óreglulegu sambandi. Við heyrðumst yfirleitt í gegnum síma en alltaf fór vel á með okkur. Gylfi hóf gjarnan símtölin á að þykjast vera gömul kona og talaði þá með röddinni sem mín kynslóð þekkir sem kerlingarnornina úr ævintýrinu um Hans og Grétu sem Gylfi túlkaði svo eftirminnilega á hljómplötu á síðustu öld.
Þó ég félli nú aldrei fyrir þessu hjá honum var það þess virði að spila með til að fá að heyra góða hláturroku þegar hann hélt hann hefði náð mér. Það var þó líka stutt í einlægnina og það brást ekki að Gylfi kvaddi mig alltaf með orðunum „Mér þykir vænt um þig, Sóli minn.“
Nú er Gylfi allur og ég get ekki verið annað en þakklátur fyrir vináttu okkar og samstarf.
Takk fyrir mig, Gylfi minn.
Mér þótti líka vænt um þig.