Umboðsmaður barna birtir nú í sjötta sinn upplýsingar um bið barna eftir þjónustu.
Nýjar tölur umboðsmanns barna um fjölda barna á bið eftir þjónustu:
Helstu niðurstöður eru þessar:
- Það bíða 2020 börn hjá Geðheilsumiðstöð barna og 1727 börn hafa beðið lengur en þrjá mánuði. Áætlaður biðtími eftir athugun vegna gruns um ADHD er að minnsta kosti 24 mánuðir og 34 mánuðir vegna gruns um einhverfu.
- Það bíða 626 börn eftir greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð, meðalbiðtími er yfir 20 mánuðir. Þá hafa 553 börn beðið lengur en þrjá mánuði.
- Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins bíða 209 börn eftir að komast að hjá sálfræðingi og meðalbiðtími er 203 dagar.
- Hjá göngudeild BUGL bíða 47 börn og meðalbiðtími er 1,8 mánuður. Þá hafa 3 börn beðið lengur en þrjá mánuði.
- Það bíða 100 börn eftir þjónustu Heilsuskólans, meðalbiðtími eru 12 mánuðir og 84 börn hafa beðið lengur en þrjá mánuði.
Nýjar tölur eru aðgengilegar á vefsíðu umboðsmanns barna – https://www.barn.is/barnasattmalinn/bid-eftir-thjonustu/upplysingar-um-bid-eftir-thjonustu-1
Löng bið eftir þjónustu við börn hefur verið viðvarandi vandamál til margra ára. Með það að markmiði að varpa ljósi á raunverulega stöðu barna hefur umboðsmaður barna, frá því í desember 2021, staðið fyrir reglulegri upplýsingaöflun um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu hjá tilteknum aðilum.
Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna- og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna- og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilsuskóli Barnaspítalans og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
Umboðsmaður barna starfar samkvæmt lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 og hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi barna. Liður í því er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila. Hluti af þeirri vinnu er að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um þann fjölda barna sem bíður eftir tiltekinni þjónustu hverju sinni. Upplýsingarnar eru uppfærðar á sex mánaða fresti til að fylgjast með þróuninni.
Það er von umboðsmanns barna að birting þessara upplýsinga muni varpa ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvatning til aðgerða og úrbóta. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns að stuðla að frekari innleiðingu Barnasáttmálans.