Hópur mótmælenda ruddist inn í þingsal öldungadeildar Mexíkóríkis í gærkvöld. Þingfundi var frestað vegna þessa og þar með umræðum um umdeilt frumvarp um kjör á dómurum í Mexíkó, ríkisútvarpið fjallaði ítarlega um málið.
Forseti öldungadeildarinnar lýsti yfir ótímabundnu hléi á störfum þingsins þegar hópurinn ruddist inn. Mótmælendurnir vildu koma í veg fyrir umræður um frumvarp sem kveður á um að allir dómarar í landinu verði kjörnir í almennum kosningum.
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, vill fyrir alla muni koma frumvarpinu í gegn áður en skoðanasystir hans Claudia Sheinbaum tekur við af honum 1. október. Hann segir núverandi kerfi rotið að innan og þjóni einungis hagsmunum stjórnmála- og viðskiptaelítunnar. Hann segir andstæðinga frumvarpsins helst óttast að þeir verði af forréttindum sínum.
Starfsmenn dómstóla og laganemar eru meðal þeirra sem mótmæla frumvarpinu hvað hæst. Forseti hæstaréttar segir þjóðkjörna dómara jafnvel eiga í meiri hættu á að verða fyrir utanaðkomandi þrýstingi glæpamanna. Eiturlyfjagengi ráða ríkjum víða í landinu og nota gjarnan mútugreiðslur og hótanir í garð opinberra starfsmanna til að fá sínu fram.
Forseti öldungadeildarinnar boðaði áframhald umræðna síðar í gærkvöld á öðrum stað í þinghúsinu. Frumvarpið var svo samþykkt í nótt með 86 atkvæðum gegn 41.“ Segir í fréttinni.