Maður var dæmdur fyrir að halda dóttur sinni frá móður hennar og móðurfjölskyldu. Stúlkan sinnti ekki reglulegri skólasókn um eins og hálfs árs skeið þar sem faðirinn sendi hana ekki í skóla og flutti á milli sveitarfélaga.
Ítarlega er fjallað um málið hjá ríkisútvarpinu og þar kemur fram að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi dæmt mann í vikunni til tíu mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að koma í veg fyrir samskipti dóttur sinnar við móður hennar.
Maðurinn sagði að stúlkan óttaðist móðurina og því ætlaði hann ekki að neyða dóttur sína til samskipta við hana. Enginn þeirra sérfræðinga sem fengnir voru að málinu fyrir dómstólum og á barnaverndarstigi taldi tilefni til að stúlkan gæti ekki umgengist móður sína. Þvert á móti töldu þeir föðurinn hafa valdið því að samband mæðgnanna rofnaði og að stúlkan einangraðist frá móðurfjölskyldu sinni.
Maðurinn var ákærður fyrir sifskaparbrot með því að halda dótturinni frá móður hennar sem hafði verið dæmd forsjá. Foreldrar stúlkunnar deildu um forsjá hennar eftir skilnað. Vorið 2020 sneri stúlkan ekki aftur í skóla heldur til móður sinnar eftir vikudvöl hjá föður sínum. Hann sagði þá að stúlkan óttaðist móður sína vegna líkamlegs og andlegs ofbeldis sem hún hefði beitt hana.
Faðirinn flutti meðal annars út á land og sagði að dóttir sín treysti sér ekki í skólann þar sem hún bjó áður, af ótta við að móðirin kæmi að sækja hana.
Hér má lesa fréttina í heild sinni