Þriggja daga aðalmeðferð hófst í morgun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli verslunarstjóra á miðjum aldri sem er ákærður fyrir að hafa um fimm ára skeið nýtt sér andlega fötlun afgreiðslukonu í versluninni til að hafa við hana ítrekuð kynmök, og láta fjóra aðra menn sem hann kynntist á netinu gera slíkt hið sama. Hann er jafnframt ákærður fyrir brot gegn andlega fötluðum unglingssyni konunnar og vinkonu hans.
Ríkisútvarpið fjallar ítarlega um málið. Þar segir að maðurinn, sem er búsettur á Akranesi, hafi mætt til aðalmeðferðarinnar í blárri dúnúlpu með hettu á höfði og huldi andlit sitt með samanbrotnu blaði, en leit á myndatökumann RÚV í dyragættinni eftir að hann settist á sakamannabekkinn.
Braut gegn henni nokkrum sinnum í mánuði
Í ákæru eru brotin sögð hafa verið framin á árunum 2016 til 2020, alltaf á heimili konunnar og sonar hennar í Reykjavík. Hann hafi að jafnaði komið nokkrum sinnum í mánuði heim til hennar og haft við hana kynmök.
„Ákærði notfærði sér að [konan] gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar og beitti hana ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburði sína og aðstöðumun gagnvart henni og traust hennar til [hans] vegna stöðu hans gagnvart henni, meðal annars sem yfirmanns hennar, og misnotaði freklega þá aðstöðu sína að [konan] var honum háð í atvinnu sinni en ákærði var verslunarstjóri í [verslun] þar sem [konan] starfaði við afgreiðslu,“ segir í ákærunni.
Svara ekki hvers vegna hinir mennirnir eru ekki ákærðir
Saksóknari rekur í ákærunni fjögur tilvik þar sem maðurinn lét aðra karlmenn koma á heimili konunnar og hafa þar mök við hana ásamt honum, og enn eitt skipti þar sem hann hvatti mann til þess sem ekki virðist hafa mætt.
Að minnsta kosti suma mennina komst hann í samband við í gegnum vefsíðu, en nafn síðunnar hefur verið afmáð úr ákæruskjalinu sem fréttastofa fékk afhent frá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Fjórir mannanna, þar af þrír þeirra sem eru í ákærunni sagðir hafa haft mök við konuna, eru nafngreindir í ákærunni, þótt nöfnin hafi verið afmáð úr skjalinu sem fréttastofa hefur undir höndum.
Fréttastofa spurði Þorbjörgu Sveinsdóttur saksóknara hvers vegna mennirnir væru ekki líka ákærðir í málinu, en hún svaraði því til að þinghaldið væri lokað og að hún gæti því engar upplýsingar veitt.
Sagðist vilja kenna syninum um kynlíf
Maðurinn er jafnframt ákærður fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum gegn unglingssyni konunnar, sem líka er andlega fatlaður. Í eitt skipti er hann sagður hafa látið soninn vera viðstaddan þegar hann hafði samræði og munnmök við konuna, „undir því yfirskyni að [sonurinn] ætti að læra að stunda kynlíf“, eins og segir í ákæru.
Hann er jafnframt ákærður fyrir kynferðislega áreitni gegn syninum með því að spyrja hann ítrekað á árunum 2016 til 2020 um kynlíf hans og gefa honum leiðbeiningar um hvernig hann skyldi stunda kynlíf.
Í öðrum ákærulið er hann ákærður fyrir að kynferðislega áreitni gegn syninum og vinkonu hans með því að hafa, á milli jóla og nýárs 2020, farið inn í herbergi til þeirra þar sem þau voru að stunda kynlíf á bak við luktar dyr, „farið upp að [vinkonunni] þar sem hún lá nakin í rúminu og fært hendi sína mjög nálægt kynfærum [hennar] og gefið [syninum] leiðbeiningar um hvernig hann ætti að veita [vinkonunni] munnmök en ákærði notfærði sér að þau gátu ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar,“ segir í ákærunni.
Ekki segir berum orðum í ákærunni hversu gömul sonurinn og vinkonan voru þegar brotin voru framin. Af ákærunni má þó ráða að pilturinn hafi orðið fimmtán ára um mitt ár 2018, enda segir saksóknari að brotin hætti þá að varða við 202. grein almennra hegningarlaga, sem meðal annars kveður á um kynferðislega áreitni gegn barni yngra en fimmtán ára, og byrji í staðinn að varða við barnaverndarlög, sem fjalla um öll börn undir átján ára aldri.
Krefjast samtals ellefu milljóna
Konan fer fram á fimm milljónir króna í bætur úr hendi mannsins, sonur hennar krefst fjögurra milljóna og kærasta hans tveggja milljóna.
Ákæran var gefin út í lok maí og þingfest í sumar. Aðalmeðferðin hófst í stóra salnum í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 9.15 í morgun og er áætlað að henni ljúki á föstudag.