Gjafabréf eru vinsæl gjöf en því miður fá Neytendasamtökin á hverju ári alltof margar kvartanir vegna gjafabréfa sem nýtast ekki. Hvergi er fjallað um gildistíma gjafabréfa í lögum en Neytendasamtökin telja eðlilegt að gildistími gjafabréfa sé hið minnsta fjögur ár rétt eins og almennur fyrningarfrestur á kröfum. Helst ættu gjafabréf þó ekki að renna út frekar en peningaseðlar.
Stuttur gildistími

Oftast er kvartað yfir því að seljandi leyfi viðskiptavininum ekki að nýta gjafabréf sem er útrunnið. Slíkir viðskiptahættir verða að teljast mjög sérstakir enda hefur seljandi ekki orðið fyrir neinum búsifjum, þvert á móti.
Búið er að greiða fyrir ákveðna vöru eða þjónustu og eðlilegt að seljandi veiti hana óháð því hvenær greiðslan fór fram. Að mati samtakanna ættu fyrirtæki, sem ekki treysta sér til að hafa eðlilegan gildistíma á gjafabréfum, að sleppa því að selja slík bréf. Eins ættu neytendur að forðast gjafabréf með stuttum gildistíma.
Dineout og Óskaskrín
Hér áður voru flestar kvartanir vegna gjafabréfa flugfélaga en eftir að Icelandair framlengdi frestinn í 5 ár heyra slíkar kvartanir sögunni til.
Í dag eru flestar kvartanir vegna fyrirtækjanna Dineout og Óskaskríns. Gildistími er í báðum tilfellum 2 ár. Gjafabréf sem hægt er að nýta hjá mörgum seljendum geta verið sniðug enda mörg dæmi um að gjafabréf hafi brunnið inni þegar seljandi hættir rekstri. Tveggja ára fyrningarfrestur er hins vegar allt of stuttur eins og fjöldi kvartana staðfestir.
Þá vekur athygli að Óskaskrín býður upp á 6 mánaða „framlengingu“ á útrunnu gjafabréfi gegn gjaldi. Það er vissulega skárra að geta framlengt en að sitja uppi með ónýtt gjafabréf. Þessir viðskiptahættir eru þó sérkennilegir. Fyrst boðið er upp á framlengingu er augljóst að fjöldi neytenda nær ekki að nýta bréfið innan gildistíma. Það eitt og sér ætti að vera vísbending um að gildistíminn sé of stuttur. Í stað þess að rukka fólk fyrir að fá náðarsamlegast að nýta kortið ætti fyrirtækið að setja sanngjarnan gildistíma strax í upphafi. Það sama gildir um Dineout.
Gjafabréf sem fyrirtæki gefa í jólagjöf
Færst hefur í vöxt að fyrirtæki og sveitarfélög kaupi gjafabréf fyrir starfsfólk og gefi í jólagjöf eða við önnur tækifæri. Nokkuð hefur verið um kvartanir vegna slíkra bréfa og þá helst yfir því að gildistíminn sé óvenju stuttur.
Neytendasamtökin eiga erfitt með að skerast í leikinn þar sem ekki er um að ræða eiginleg neytendakaup heldur fyrirtæki/sveitarfélag sem kaupir vöru/þjónustu af öðru fyrirtæki. Í þeim tilfellum sem samtökin hafa heyrt af hefur seljandi gefið góðan afslátt af kaupunum enda verið að kaupa mikið magn gjafabréfa á einu bretti. Á móti kemur að skilmálarnir eru þrengri en almennt gerist.
Þótt Neytendasamtökin hafi fengið kvartanir vegna þessa er ekki hægt að fullyrða að gjafabréfin komi ekki í flestum tilfellum að góðum notum. Neytendasamtökin hvetja þó fyrirtæki sem kaupa gjafabréf fyrir starfsfólk sitt til að fara fram á eðlilegan gildistíma gjafabréfa eða 4 ár hið minnsta. Að sama skapi eru eigendur bréfanna hvattir til að skoða skilmálana vel og nýta gjafabréfin áður en þau renna út á tíma.
Eru gjafabréf góð gjöf?
Gjafabréf geta vissulega verið góð gjöf en í ljósi þess hversu mörg gjafabréf fyrnast eða týnast er rétt að hafa eftirfarandi í huga:
- Ef þú ert að kaupa gjafabréf skaltu passa að gildistíminn sé ekki of stuttur. Flest mál sem koma til kasta samtakanna varða gjafabréf með eins eða tveggja ára gildistíma.
- Allir skilmálar gjafabréfsins, svo sem gildistími, eiga að koma fram á gjafabréfinu.
- Ef þú átt útrunnið gjafabréf skaltu samt sem áður rétt að láta reyna á það. Margir seljendur taka við gjafabréfum þótt gildistíminn sé liðinn.
- Alltaf er eitthvað um að neytendur sitji uppi með sárt ennið því seljandi hefur hætt rekstri. Það er því góð regla að lúra ekki á gjafabréfum heldur nýta þau sem fyrst.
,,Ekki kaupa húsgögn eða gjafavörur! – Sparaði 65% með því að sniðganga íslenskt okur!“

