Karlmaður særðist lífshættulega í stunguárás í Súðavík í gærkvöldi
Í tilkynningu á Facebooksíðu lögreglunnar á Vestfjörðum segir að maðurinn hafi verið fluttur á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði en þaðan var honum flogið á Landspítalann í Reykjavík til aðhlynningar. Hann er að sögn lögreglu kominn úr lífshættu.
Lögregla fékk tilkynningu rétt fyrir miðnætti um að átök hafi verið í heimahúsi í Súðavík og maður hafi verið stunginn. Lögregla og sjúkralið fóru þegar á vettvang.
Ungur karlmaður var handtekinn á staðnum, grunaður um að hafa stungið manninn. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hyggst krefjast gæsluvarðhalds yfir manninnum fyrir Héraðsdómi Vestfjarða í dag, vegna rannsóknarhagsmuna.
Lögregla segir rannsókn málsins á frumstigi og gefur ekki frekari upplýsingar um málið í bili.