Hugleiðingar veðurfræðings
Víðáttumikil hæð langt suður í hafi og smálægðir og lægðadrög á siglingu norður á bóginn milli Íslands og Grænlands beina hlýju og röku lofti yfir landið. Þessum lægðum fylgir strekkingsvindur, einkum vestantil og einnig rignir allhressilega inná milli. Yfirleitt bjartviðri á Norðaustur- og Austurlandi og hiti gæt farið allvíða yfir 20 stig á þeim slóðum.
Þar sem úrkoman safnast saman í allháar tölur yfir nokkra daga þá eykst hættan á aurskriðum og grjóthruni þar sem jarðvegur er orðinn mjög blautur. Eins hækkar talsvert í ám og lækjum á vestanverðu landinu og geta vöð orðið íllfær af þeim sökum.
Ferðamenn og útivistarfólk er hvatt til að kanna vel veðurathuganir og -spár áður en lagt er af stað, en áí dag þurfa vegfarendur norðvestantil að huga vel að farartækjum sem taka á sig mikinn vind, ekki síst ef ekið er með aftanívagn.
Ferðamenn á Vesturlandi um helgina ættu að forðast varasöm vöð og brattar fjallshlíðar. Einnig ætti fólk ávallt að lesa vandlega veðurviðvaranir sem birtast á heimasíðu Veðurstofunnar.
Veðurhorfur á landinu
Sunnan 8-15 m/s, en sums staðar 13-18 norðvestantil. Rigning eða súld með köflum um landið vestanvert og hiti 10 til 15 stig, en hægari suðvestanátt, víða bjartviðri og hiti 15 til 22 stig eystra. Hægari og bætir í úrkomu um landið vestanvert seint í kvöld, en minnkandi úrkoma seint á morgun og annað kvöld.
Spá gerð: 12.07.2024 04:00. Gildir til: 13.07.2024 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Sunnan 8-13 m/s og súld eða rigning með köflum á vestanverðu landinu. Hæg suðlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað eystra. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast austantil.
Á mánudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt, 3-8 og víða bjart, en sums staðar líkur á þoku eða súld við sjávarsíðuna. Hiti 12 til 22 stig, hlýjast inn til landsins.
Á þriðjudag:
Fremur hæg austlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en rigning eða súld sunnanlands eftir hádegi. Hiti 8 til 19 stig, hlýjast á Norðausturlandi.
Á miðvikudag og fimmtudag:
Breytileg átt 3-8 og víða dálítil væta með köflum. Kólnar smám saman í veðri.
Spá gerð: 12.07.2024 08:23. Gildir til: 19.07.2024 12:00.