Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að staðfesta samstarfsyfirlýsingu sem kveður á um formlega aðild heilbrigðisráðuneytisins að faglegum samstarfsvettvangi evrópsk sérfræðingahóps um málefni einstaklinga með heilabilun (The European Group og Governmental Experts on Dementia).
Ráðuneytið hefur tekið þátt í samstarfinu undanfarið eitt og hálft ár og hefur það nýst vel, meðal annars við stefnumótun og gerð aðgerðaáætlunar um þjónustu við einstaklinga með heilabilun sem birt var í apríl síðastliðnum. Með undirritun yfirlýsingarinnar er samstarfið formgert en þar er skilgreint hvað í því felst, fjallað um einstaka efnisþætti og verkþætti, stjórnun og fjármögnun samstarfsins.
Fjöldi Evrópuþjóða tekur þátt í samstarfinu þar sem koma saman sérfræðingar ráðuneyta sem fara með málefni einstaklinga með heilabilun en skipulag og umgjörð samráðsfunda er á hendi evrópsku Alzheimersamtakanna (Alzheimer Europe).
Þess má geta að heilbrigðisráðuneytið á einnig í norrænu samstarfi um málefni fólks með heilabilun þar sem unnið er að ýmsum verkefnum og deilt faglegum sjónarmiðum og þekkingu. Í tengslum við það samstarf er t.d. nýbúið að gefa út handbók um umönnun innflytjenda með heilabilun og hefur hún verið þýdd á íslensku.