Forsvarsmenn flugfélagsins Play funda með Íslenska flugstéttafélaginu (ÍFF) í dag. ÍFF sendi félaginu erindi í síðustu viku í kjölfar þess að flugfélagið kynnti breytingar á rekstrarfyrirkomulagi sínu.
Fjallað er ítarlega um málið á vef ríkisútvarpsins og þar segir að félagið hafi tjáð Play að það teldi flugfélagið fara á svig við lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. ÍFF gaf Play sjö daga til að bregðast við en hafði ekki borist svör í morgun – níu dögum síðar. Nú fyrir skemmstu staðfesti formaður ÍFF, Jóhann Óskar Borgþórsson, að boðað hefði verið til fundar milli félagsins og Play og var nokkuð bjartsýnni að samkomulag myndi nást.
Heimildir fréttastofu ríkisútvarpsins herma að mikil ólga hafi verið meðal flugmanna Play eftir fund þeirra með forsvarsmönnum ÍFF í gær þar sem þeim var tilkynnt um viðbragðsleysi Play við erindinu.
Flugi Play frá Keflavík til Parísar var aflýst í morgun með 15 mínútna fyrirvara, sökum veikinda meðal áhafnarinnar að sögn upplýsingafulltrúa Play. Spurður hvort aflýsing flugsins tengist kröfum félagsins svarar Jóhann neitandi og bendir á friðarskyldu á vinnumarkaði.
Forstjóri Play, Einar Örn Ólafsson, boðaði til starfsmannafundar í morgun sem stendur nú yfir.

