Umfangsmikilli rannsókn lögreglunnar á máli er varðar frelsissviptingu, fjárkúgun og manndráp miðar vel. Rannsóknin er þó enn á frumstigum. – Lögreglan á Suðurlandi greinir frá:

Líkt og fram hefur komið voru þrír aðilar, tveir karlmenn og ein kona, úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald í héraðsdómi Suðurlands í gær.
Í dag var einn aðili til viðbótar handtekinn í þágu rannsóknar málsins og er nú í haldi lögreglu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Við rannsóknina hefur m.a. verið lagt hald á nokkrar bifreiðar, framkvæmdar hafa verið húsleitir og fjöldi vitna hefur verið yfirheyrður.
Auk aðstoðar frá öðrum lögregluembættum við rannsóknina hefur almenningur veitt lögreglunni á Suðurlandi gagnlegar ábendingar og myndefni. Áfram verður unnið af kappi við rannsóknina en ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.