Knýjandi þörf er á reglum sem kveða skýrt á um hvers konar þvinganir eru heimilar í meðferð sjúklinga ef víkja þarf frá meginreglunni um sjálfsákvörðunarrétt sjúklings til að þiggja eða hafna meðferð. Þetta er meginniðurstaða starfshóps heilbrigðisráðherra sem fjallað hefur um efnið. Drög að reglugerð byggð á niðurstöðu hópsins verða birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.
„Starfshópurinn hefur skilað mjög vandaðri vinnu og tillögum sem ég hef trú á að muni setja þessi mál í skýrari farveg eins og kallað hefur verið eftir. Að beita einhvern nauðung og ganga þannig gegn vilja hans og sjálfræði er grafalvarlegt mál. Slíkt ber að forðast í lengstu lög og sé það óhjákvæmilegt þarf allt varðandi ferlið að vera skýrt, gagnsætt og rekjanlegt“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, sem tók formlega við niðurstöðum hópsins á skilafundi í ráðuneytinu.
Meginniðurstaða starfshópsins er sú að allt vald yfir öðrum einstaklingum felur í sér hættu á misnotkun. Í skýrslu starfshópsins er fjallað um ábendingar undirnefndar Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyndingum sem bent hefur á þessu sjónarmið og talað fyrir nauðsyn þess að þvinguð meðferð fari einungis fram innan skilgreind ramma þar sem kveðið er á um ýmis tilgreind viðmið og verkferla, eftirlit, endurskoðun og áfrýjunarmöguleika. Þvinguð meðferð megi heldur aldrei vera ætluð til hægðarauka fyrir starfsfólk, ættingja eða aðra.
Í 28. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er fjallað um meðferð nauðungarvistaðs manns á sjúkrahúsi. Þar er einnig kveðið á um heimild heilbrigðisráðherra til að setja nánari reglur um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð. Slíkar reglur hafa ekki verið settar til þessa og hefur það sætt gagnrýni, ekki síst af hálfu fagfólks. Verkefni starfshóps heilbrigðisráðherra var að fjalla um þörf fyrir slíkar reglur og hver helstu efnisákvæði slíkra leiðbeininga ættu að vera.
Meðfylgjandi er skýrsla starfshópsins með greinargóðri umfjöllun um efnið og niðurstöðum starfshópsins. Skýrslunni fylgja drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð og er stefnt að því að birta hana til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda innan skamms.
Formaður starfshópsins var Helga Baldvins Bjargardóttir, lögmaður og þroskaþjálfi en aðrir nefndarmenn voru Halldóra Jónsdóttir, geðlæknir á Landspítala, Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg og Sveinn Rúnar Hauksson læknir, tilnefndur af Geðhjálp.