Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi Miðflokksins, skrifaði póst á Facebook-síðu sína á mánudagskvöld þar sem hún sagði: „Bragginn var smámál miðað við bensínstöðvadílinn. Ég sat undir árásum mánuðum saman en gaf ekkert eftir í þágu borgarbúa, skítkastið var ógeðslegt.“
Tilefnið var birting umfjöllunar Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um bensínstöðvadílinn í Kastljósi þá fyrr um kvöldið.
Það var athyglisvert að heyra Dag B. Eggertsson halda því fram að ákvörðun um annað en það sem borgin gerði hefði skapað fullkomið uppnám í atvinnulífi Reykjavíkur. Veðköll kæmu fram frá bankastofnunum og margt þaðan af verra. Sami Dagur hefur hingað til verið hrifinn af fyrningarleið gagnvart sjávarútvegi. Hvaða áhrif heldur hann að slíkar æfingar hafi?
Hagaðila á Reykjavíkurflugvelli hefur eflaust rekið í rogastans vegna afstöðu borgarstjórans fyrrverandi, enda rekstrarlega óvissan þar verið með endemum í boði meirihluta borgarstjórnar kjörtímabilum saman. Á fluggörðunum raðklóra menn sér víst í kollinum.
Kostulegast var þó atriðið þegar borgarstjórinn reyndi að segja Maríu Sigrúnu að í samningunum stæði eitthvað annað en í þeim stóð. Þetta atriði minnti á vel útfærðan Fóstbræðraþátt. Og Sir Norman Fry var ekki langt undan.
Allt átti þetta svo að vera hluti af loftslagsplani Reykjavíkurborgar?! Allt átti þetta líka að vera Dagsatt.
Ætlunin með þessum pistli er ekki að kafa djúpt ofan í þetta skrítna mál, sem virðist fljótt á litið innifela býsna ríflegan gjafagjörning, það verður verkefni fyrir innri endurskoðun Reykjavíkurbogar, heldur að benda Ríkisútvarpinu á annað áhugavert efni til athugunar gagnvart Reykjavíkurborg. Svona í ljósi þess að stofnunin er komin á bragðið.
Staðan er sú að um hundrað milljarðar eru á efnahagsreikningi Félagsbústaða á grundvelli endurmats eigna, sem orkar mjög tvímælis í ljósi þess að engin áform eru uppi um sölu eigna félagsins.
Þetta endurmat hefur svo verið notað til að fegra bækur Reykjavíkurborgar.
Spurningin sem áhugavert væri að einhver af níu starfsmönnum Kveiks, eða sá hópur sem kemur að Kastljósi, leitaði svara við er: Hver væru áhrifin á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar ef þetta endurmat hefði ekki komið til, með tilliti til skuldahlutfalla, rekstrarafkomu undanfarinna ára og lánsfjárhæfis borgarinnar?
En að lokum: Takk Vigdís Hauksdóttir fyrir að berjast gegn þessu á sínum tíma. Allt hefst þetta á endanum.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is