Ég birti hér aftur orð sem ég setti fram á þessum vettvangi í síðustu viku, sjá Fyrst vil ég þó biðjast afsökunar. Ég biðst afsökunar á að hafa í sjónvarpsviðtali í síðustu viku notað orðið fáviti í umræðu um viðkvæm og erfið mál og tekið almennt of sterkt til orða. Það gerði engum gott, allra síst mér.
Afsökunin er skilyrðislaus. Ég mun ekki nota orðið aftur í þessu samhengi þótt það hafi verið gert með þessum hætti í fræðslu í grunnskólum landsins. Það getur kannski átt við þar en alls ekki af minni hálfu. Ég sé svo sannarlega eftir því og ítreka að ég bið allt það fólk, sem ég særði, afsökunar.
Þau orð, sem ég birti fyrir viku á þessum vettvangi, voru þessi: Umræða að undanförnu um ofbeldi og áreitni, þöggun og meðvirkni, hefur verið þörf. Þau, sem verða fyrir ofbeldi eða áreitni, eiga ekki að þurfa að þola skömm í eigin huga eða afneitun þess sem gerðist af hálfu annarra. Ekki er hægt að jafna saman ofbeldi og áreitni annars vegar og sárindum vegna ósanngjarns umtals og sleggjudóma hins vegar.
Vissulega kraumar reiði víða yfir óréttlæti sem hefur viðgengist en ég er samt hugsi yfir þeim staðhæfingum sem heyrst hafa að í knattspyrnu- eða íþróttahreyfingunni allri ríki hvarvetna óþolandi ofbeldismenning. Ég hef verið viðloðandi íþróttir frá barnæsku, veit að margt hefur þar mátt betur fara og við skulum vinna saman að því.
Ég hef kynnst fjölmörgum leikmönnum, þjálfurum og stjórnarfólki í heimi íþróttanna. Ég tel það ekki góðum málstað til framdráttar að varpa skugga tortryggni yfir allt það fólk. Sama gildir um heim menningar og lista, stjórnmála og stjórnsýslu, fjölmiðla og skóla – alla kima samfélagsins raunar þar sem metoo-byltingin hefur svipt hulu af áreitni og ofbeldi. Við þurfum öll að gera betur en við erum ekki öll undir sömu sök seld. Við þurfum réttlæti, sanngirni og viðurlög við lögbrotum en líka umræðu og fræðslu og leiðir til að leyfa fólki að bæta ráð sitt, sýni það iðrun og eftirsjá.