Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir í kvöldfréttum RÚV það vera ömurlegt að þurfa að takast á við frásagnir kvenna um ofbeldi og kynferðislega áreitni af hálfu forystumanna flokksins á Akureyri. Hún sagði ásakanir kvennanna vera trúverðugar að sínu mati. Fundur var þegar haldinn um málið af stjórn flokksins nú í kvöld.
„Þetta er mjög yfirgripsmikið. Við erum með alveg gríðarlegt magn af allskonar tölvupóstsendingum og furðulegheitum sem við eigum eftir að fara yfir.“ sagði Inga Sæland í viðtalinu og að lokum sagði hún „Eitt er alveg víst. Við munum alltaf standa með þolendum ef það er niðurstaðan.“
Í kvöldfréttum RÚV var einnig rætt við Jón Hjaltason sem hyggst fara fram á lögreglurannsókn á ásökunum sem hann segir að séu líklega á hendur sér og Brynjólfi sem eru á lista flokksins. Jón var ósáttur við að fá ekki að vera viðstaddur fund stjórnar flokksins sem var klukkan sex í kvöld. „Mér finnst ansi merkilegt hvernig þau ætla að koma fram í þessu máli. Ég er búinn ítrekað í dag að hafa samband við formanninn. Búinn að hringja og senda henni skilaboð og hún virðir mig ekki viðlits. „Það virðist bara eiga að afgreiða, dæma og krossfesta,“ sagði Jón, og harmar að sjónarmið hans og Brynjólfs eigi ekki að fá að koma fram í málinu. Inga Sæland fagnaði því að lögreglurannsókn verði framkvæmd en á henni var að heyra að hún telur málið vera yfirgripsmikið og ekki sjái enn til lands í því. Þá vildi hún ekki nafngreina þá eða þann aðila sem ásakanir beinast gegn.