Fjörugar umræður sköpuðust á fundi sem Kennarafélag FSu efndi til með fulltrúum stjórnmálaflokka í morgun. Fjórir flokkar sendu fulltrúa á fundinn.
Hvert sæti var skipað í Selinu, verkfallsmiðstöð Kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands, í morgun en boðað hafði verið til fundar með sitjandi þingmönnum Suðurkjördæmis. Nokkurrar eftirvæntingar gætti um hvaða kjörnu fulltrúar myndu þekkjast boðið.
Fjórir fulltrúar stjórnmálaflokkanna komu til fundarins; Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins. Auk þess kom Sandra Sigurðardóttir, sem skipar annað sæti á lista Viðreisnar í kjördæminu. Hún kom í stað þingmannsins Guðbrands Einarssonar en hann var hlaðinn öðrum störfum. Þá mætti Halla Hrund Logadóttir, sem skipar forystusæti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og situr þar ofar en Sigurðar Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sem er í 2. sæti á Suðurlandi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks komu ekki til fundarins. Athygli vakti fjarvera fjármálaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, en leitað hafði verið eftir því að hann kæmi á fundinn. Miðflokkur, Píratar og VG eiga ekki þingmann í kjördæminu.
Von um að málinu verði þokað
Guðmundur Björgvin Gylfason, formaður Kennarafélags FSu, setti fundinn og reifaði stuttlega meginkröfu Kennarasambandsins í yfirstandandi kjaraviðræðum, en hún snýr að 7. grein samkomulags frá 2016 þar sem gert var samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda opinbera markaðarins annars vegar og almenna markaðarins hins vegar. Jöfnun launa milli markaða átti að fylgja á eftir en nú, átta árum síðar, hefur ekki verið staðið við það loforð.
Pallborðið fór í gang að loknu ávarpi Guðmundar Björgvins og tók Halla Hrund, frambjóðandi Framsóknar, fyrst til máls. Hún sagðist bera virðingu fyrir kennarastarfinu og ljóst að starfið væri flóknara en áður.
Ásthildur Lóa, þingmaður Flokks fólksins, sagðist þekkja vel þá tilfinningu að vera í verkfalli og kjarabaráttu enda hafi hún barist á vettvangi grunnskólakennara á árum áður. Hún kvaðst muna vel eftir samkomulaginu frá 2016. „Ég veit þess vegna vel um hvað þetta snýst og það eru ekki launahækkanir heldur einfaldlega að staðið sé við gerða samninga,“ sagði Ásthildur Lóa og uppskar lófaklapp.
Oddný, þingmaður Samfylkingar, sagðist skilja vel af hverju Kennarasambandið beitti sér fyrir kröfunni um jöfnun launa. Hún sagði ríki og sveitarfélög þurfa að koma sér saman um hvernig megi útfæra verkefnið en líklegt sé að það verði gert í skrefum. „Það að þið hafið tekið þessa kröfu upp gefur von um að hægt sé að þoka málinu áfram,“ sagði Oddný og bætti við að kennarar hafi verið þolinmóðir í átta ár en nú sé komið að efndum.
Sandra, frambjóðandi Viðreisnar, sagðist standa með kennurum í yfirstandandi baráttu. Hún sagðist bera þau skilaboð frá formanni Viðreisnar að orð skuli standa og efna eigi samninginn.
Mikilvægt framlag kennara í FSu
Samandregið má segja að setningin „Orð skulu standa“ hafi verið setning fundarins hjá þeim Ásthildi, Oddnýju og Söndru. Halla Hrund sagði það sitt hjartans mál að störf kennara verði metin að verðleikum og kvaðst hún mundu upplýsa fjármálaráðherra um það sem kom fram fundinum.
Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, átti gott samtal við kennarana að loknu pallborði og þakkaði þeim þeirra mikilvæga framlag í baráttu allra félagsmanna Kennarasambandsins.
Sandra Sigurðardóttir, Viðreisn, Oddný Harðardóttir, Samfylkingu, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, Halla Hrund Logadóttir, Framsóknarflokki og fundarstjórinn Guðmundur Björgvin Gylfason, formaður Kennarafélags FsU.