Mikið var að gera í gærkvöld og nótt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hundrað mál voru skráð hjá lögreglu frá klukkan 17:00-05:00
Eitthvað virðist fólk vera farið að slaka á varðandi covid, þar sem mjög mikið var um partý í nótt í heimahúsum. Hávaðakvartanir vegna samkvæmishávaða voru á þriðja tug og allur gangur var á hvort fólk var að virða 10 manna regluna í þessum samkvæmum.
Fangageymsla var nánast full eftir nóttina þar sem fólk var vistað vegna hina ýmsu mála s.s. líkamsárása, þjófnaðar, húsbrota og ástands.
Hér að neðan eru nokkur þeirra mála sem komu inn á borð lögreglu.
Um hálf níu í gærkvöld var aðili til vandræða í miðbænum þar sem hann var meðal annars að áreita vegfarendur, eftir árangurslausar tilraunir að tala manninn til var hann vistaður i fangaklefa.
Ökumaður stöðvaður í austurbænum sem reyndist undir áhrifum áfengis og fíkniefna ásamt því að vera sviptur ökuréttindum og annar ökumaður handtekinn í sama hverfi, eftir að hafa ekið á tvær kyrrstæðar bifreiðar og rafmagnskassa. Ökumaðurinn var sótölvaður ásamt því hafa aldrei öðlast ökuréttindi og var hann vistaður í fangaklefa.
Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var aðili handtekinn eftir að hafa gengið berserksgang í heimahúsi þar sem hann var gestkomandi, hann er nú vistaður í fangaklefa.
Ökumaður var stöðvaður í Vallarhverfi í Hafnarfirði sem reyndist undir áhrifum fíkniefna. Þá var annar handtekinn í Hafnarfirði vegna líkamsárásar, hann var vistaður í fangaklefa en ekki liggja fyrir upplýsingar um líðan árásarþola.
Þá var enn einn handtekinn í Kópavogi, þar sem hann var kominn inn á lokað athafnasvæði hjá fyrirtæki í hverfinu. Var hann vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar.