Fjársýsla ríkisins hefur birt uppgjör fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2025. Samkvæmt uppgjörinu eru tekjur ríkissjóðs meiri en áætlað var, en tímabundnir liðir, einkum auknar lífeyrisskuldbindingar og uppgjör ÍL-sjóðs, hafa áhrif til hækkunar gjalda á tímabilinu
„Niðurstöður uppgjörsins eru ábending um mikilvægi aga og ábyrgðar í ríkisfjármálum.
Þrátt fyrir tímabundna liði sem hafa áhrif á rekstraryfirlitið eru heildarhorfur ársins stöðugri en áður var talið, og við munum halda áfram að vinna að því að tryggja sjálfbæran rekstur ríkisins,“ segir Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Afkomuhorfur batna fyrir árið í heild
Afkoman samkvæmt rekstraryfirliti er neikvæð um 142,7 ma.kr., sem er meiri halli en á sama tíma í fyrra. Hallinn skýrist að stórum hluta af hækkun á lífeyrisskuldbindingum ríkisins, sem er bókhaldsliður og hefur ekki áhrif á rekstur ríkissjóðs til lengri tíma.
Afkomuhorfur á árinu í heild eru þrátt fyrir það betri en áður var talið. Endurmat í tengslum við fjáraukalög bendir til að halli A1-hluta ríkissjóðs, sem er sú starfsemi sem er einkanlega fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum og framlögum, verði um 35 ma.kr. á árinu, sem er mun betri niðurstaða en áætlað var í fjárlögum.
Tekjur hærri en gert var ráð fyrir
Tekjur ríkissjóðs nema 994 ma.kr. og eru 72 ma.kr. umfram áætlun. Skattar og tryggingagjöld hækka um 11% frá fyrra ári. Aðrar tekjur, þar á meðal af auðlindum, skila einnig meiri tekjum en búist var við.
Tímabundin áhrif af uppgjöri ÍL-sjóðs
Uppgjör ÍL-sjóðs hefur tímabundin áhrif á bókhald ríkissjóðs og lækkar skuldir A-hluta um 6% og sala Íslandsbanka skilar ríkissjóði 90,6 ma.kr.
Fjárfestingar ríkisins nema 46,1 ma.kr., sem er svipað og í fyrra. Þar vega þungt framkvæmdir við vegakerfið og uppbygging nýs Landspítala.
Gjöld málaflokka nema 1.082,1 ma.kr. og aukast einkum vegna hærri fjármagnskostnaðar í tengslum við uppgjör ÍL-sjóðs og hækkun á lífeyrisskuldbindingum.
Helstu atriði uppgjörsins:
- Tekjur ríkissjóðs eru 72 ma.kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
- Rekstraryfirlit sýnir 142,7 ma.kr. halla, að mestu vegna tímabundinnar hækkunar lífeyrisskuldbindinga.
- Endurmat bendir til að halli ársins verði minni en áður var talið samkvæmt GFS.
- Uppgjör ÍL-sjóðs lækkar skuldir ríkisins um 6%.
- Sala Íslandsbanka skilar 90,6 ma.kr. innstreymi í ríkissjóð, en hefur ekki áhrif á tekjur eða gjöld.
- Fjárfestingar svipaðar og í fyrra, einkum í vegakerfi og nýju sjúkrahúsi.
Ársfjórðungsuppgjör Fjársýslunnar eru gerð á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila sem miða við rekstrargrunn, IPSAS-staðals. Framsetning og flokkun upplýsinga um fjármál skv. 1. gr. fjárlaga er samkvæmt hagskýrslustaðlinum GFS, sem ætlað er að meta efnahagsleg áhrif opinberrar fjármálastefnu og greina áhrif hennar á hagkerfið.

