Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. maí, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 4. maí kl. 8 var bifreið ekið vestur Nýbýlaveg og aftan á aðra, sem var kyrrstæð við vegamót Þverbrekku. Við áreksturinn kastaðist fremri bifreiðin áfram og yfir á öfugan vegarhelming og á bifreið sem var ekið austur Nýbýlaveg. Ökumaður og farþegi í síðastnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 5. maí. Kl. 13.52 missti ökumaður á leið vestur Suðurströnd, á móts við Íþróttamiðstöð Seltjarnarness, stjórn á bifreið sinni sem hafnaði á steinhleðslu sem þar er utan vegar. Ökumaðurinn, sem talið er að hafi fengið aðsvif, var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.47 missti ökumaður bifhjóls stjórn á hjóli sínu og féll af því á bifreiðastæði við Bauhaus. Ökumaðurinn, sem var við æfingar í keilubraut þegar slysið varð, var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 8. maí kl. 15.55 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni þegar hann hugðist aka austur Reynisvatnsveg frá gatnamótum Þúsaldar og Víkurvegur. Fyrst ók hann á steinkant og síðan á kyrrstæða bifreið úr gagnstæðri akstursátt, en ökumaður hennar beið eftir grænu ljósi á gatnamótunum til að aka Þúsöld til suðvesturs. Þrátt fyrir áreksturinn stöðvaðist fyrrnefnda bifreiðin ekki fyrr en henni hafði verið ekið um 200 metra út af veginum til norðurs, en þar í mýri lauk ökuferðinni. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild, en sá sem olli slysinu kann að hafa fengið aðsvif í aðdraganda þess.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.