Andrúmsloftið á Alþingi hefur sjaldan verið furðulegra enda er ríkisstjórn Íslands nú í frjálsu falli. Alþingi Íslendinga, eða hvað á að kalla þetta hysteríska heimilshald við Austurvöll sem kemur engu í verk, er í upplausn. Það sjá landsmenn allir þótt RÚV flytji af þinginu engar fréttir eins og venjulega.
Í þingsal má nú sjá íslenska embættismenn engjast um af valdagræðginni einni saman. Bein útsending úr Víti Dantes á Alþingisrásinni.
Á meðan Katrín var við völd var yfirborðið eilítið settlegra en eftir að hún afhenti Bjarna lyklavöldin má segja að tjaldið hafi hreinlega fokið ofan af sirkusnum og út velta nú apar, trúðar og töframenn sem rífa og tæta og saga fólk í tvennt, ekki af misgáningi heldur af hreinum illvilja.
Hvað skal segja við hlátrasköllum Diljár Mistar í þættinum Sprengisandi um síðustu helgi?
Er of seint fyrir hana að hefja nám í Hjallastefnunni? Tommi Tomm vill vera ber að ofan, eða vill hann bara vera í ermalausu? Er það þingmál? Hvað skal segja um hugarvíl Bjarkeyjar Ólsen sem þykist hafa kvalafulla sannfæringu en kvelst þó ekki nægjanlega til að gefa kvölum hvala nokkra merkingu.
En þau undur og stórmerki gerðust þó að hún virðist nú hafa lesið Lagareldisfrumvarpið, sóðalegastu atlögu ,,náttúruverndar- og mannréttindasinnanna“ í VG að náttúru, lífríki og sjálfstæði landsins og komist að þeirri niðurstöðu að um ,,varasama atvinnustarfsemi“ sé að ræða. Þá þanka virðist hún samt ætla að geyma með sjálfri sér. Ég vona að hún vakni til þeirra þanka dag hvern héðan af.
Ég hef bullandi samúð með hvölum sem eru margfallt vitrari og langlífari skepnur en mannfólkið, en reyndar á Kristján Loftsson líka mína samúð nú um stundir því popúlískar fimleikaæfingar Svandísar áður og teygjustökk Bjarkeyjar nú, eru langt frá því að búa yfir nokkrum þokka né reisn.
Svandís, Svandís, Svandís hvað ertu að pæla, afhverju að voma yfir þessu ríkisstjórnarsamstarfi mikið lengur?
Þorgerður Katrín svona í alvöru, hvernig er að mæta í vinnuna?
Vitiði stelpur, það er engum til framdráttar að láta eins og þetta sleifarlag sé í lagi. Þið gerið þjóðinni og kynsystrum ykkar hreinan óleik og eruð ungum konum glataðar fyrirmyndr. – Ó, má ekki gagnrýna konur? Það ekki bara má heldur á að gagnrýna embættismenn af öllum kynjum ef nauðsyn krefur.
Ég myndi segja að það sé aðkallandi.
GRALLARINN ÚR GARÐABÆNUM
Hvað eigum við að gera við Bjarna? Gefa honum bara bankann og biðja hann svo lengstra orða að koma sér af landi brott? Ef við ætlum ekki að gefa honum bankann, bæinn og bithagann þá verðum við að koma honum frá sem fyrst, ekki með hornamali og svívirðingum heldur einurð, samheldni og aðgerðum.
Vill hann verða hershöfðingi? Leyfum honum það, kaupum handa honum búning og medalíur en frekari vopnakaup verður að stöðva. Sá samningur sem er í vinnslu milli Bjarna og leikarans Zelenský verður að taka eðlisbreytingum, burt með vopnakaup og vopnaflutninga úr ákvæðum hans, takk. Málið kemur okkur gríðarlega mikið við og þarf auðvitað að fá þinglega meðferð. Við höfum reynslu af því þegar ráðamenn taka af okkur völdin – ,,Viljugar þjóðir“ muniði? Við eigum ekki að bera skömm misviturra ráðamanna í svo alvarlegum málum. Íslendinga hafa lítinn áhuga á beinni þáttöku í hernaði og þar með vaxandi hernaðaræsingu sem breiðist hraðbyri um álfuna alla. Við erum friðelskandi þjóð.
Fjórir milljarðar árlega til Úkraínu næstu fjögur árin og 100 milljónir til Palestínu
Fjórir milljarðar árlega til Úkraínu næstu fjögur árin og 100 milljónir til Palestínu? Fyrrum fjármálaráðherra kann augljóslega ekki að reikna og þá síður eftirmaður hans Kolbrún Reykfjörð. Bjarni og Kolbrún þurfa stuðning við útreikninga og þjóðin þarf augljóslega að vera þeirra siðferðislegi áttaviti.
Þarf Svanhildur Hólm nýskipaður sendiherra að flytja til Washington? Getur Bjarni ekki bara farið þangað strax? Örlætið við Pentagon í orði og borði mun vonandi veita honum aðgengi að þeim kreðsum sem hann sækist eftir þegar við erum búin að losa okkur við hann.
HINIR RAUNVERULEGU ÓVINIR
Og í eitt skipti fyrir öll, það eru ekki útlendingar sem við eigum að hræðast heldur okkar eigið stjórnmálafólk! Það er ekki útlendingar sem setja hér lög sem heimila að hingað komi fólk til vinnu í gegnum vafasamar þrælaleigur.
Það er ekki útlendingum að kenna að fyrirtækjum er hér heimilt að nýta sér starfslið til skamms tíma í senn án þess að það njóti réttinda á vinnumarkaði. Það er ekki útlendingum að kenna að brotið er á erlendu vinuafli heldur því umhverfi sem stjórnvöld hafa skapað til að hámarka gróða fyrirtækja á kostnað mannréttinda vinnandi fólks.
Við komum fram við útlendinga eins og annars flokks manneskjur á Íslandi. Þessi örþjóð sem er með eilífan sleikjuskap við stórþjóðir hagar sér engu skár en lénsherrar stórþjóðanna.
Kannski ættum við einfaldlega að hætta að kvarta yfir því að erlent vinnuafl sem sinnir þjónustu og verslunarstörfum tali ekki íslensku. Fólk sem býr við lítil réttindi á skítalaunum og hýrist í misjöfnum húsakynnum og er hér bara stutta stund þarf ekkert að læra íslensku. Það er vanhugsuð frekja að ætlast til þess.
Ég ætla rétt að minnast á þann ,,vanda“ sem Íslendingum hefur verið talið trú um að koma flóttafólks til Íslands skapi. Sú þvæla er alfarið á ábyrgð þeirra sem farið hafa með völd í landinu síðasta tæpa áratug. Stjórnvalda sem hafa haft mannvonskuna og hentistefnuna að leiðarljósi í útlendingamálunum eins og öllu öðru. Framkoma íslenskra stjórnvalda í garð flóttafólks hefur skipað okkur í hóp þeirra sem ekki eru hæfir til að fylgja barni yfir götu án þess að henda því fyrir bíl stuttu síðar.
Nú þarf þjóðin eins og ábyrgðarfullir foreldrar að taka í hönd Bjarna Benediktssonar, stinga honum oní kolabing, loka hann útí landsynning, láta hann hlaupa allt um kring. #meðhjartanu
Ljósmynd af vef ThThe Reykjavík Grapevine, Ljósmyndari Art Bicnick.
Umræða