Lífeyrissjóðir í 50 ár. 1. hluti
Nú berast fréttir af mikilli hækkun eigna lífeyrissjóða sem í lok Júní mánaðar voru komnar í 4.700 milljarða króna og höfðu aukist um 570 milljarða frá áramótum.
Í fljótu bragði virðast þetta frábærar fréttir en við nánari skoðun vakna upp spurningar.
Núverandi kerfi, í þeirri mynd sem við þekkjum í dag, var komið á árið 1969. Lífeyrissjóðirnir eiga sér hinsvegar mun lengri sögu. Þetta þýðir að nú eru að komast á lífeyri kynslóðir sem greitt hafa í sjóðina í um 50 ár eða í heil 40 ár frá því að verðtryggingu var komið á með Ólafslögum 1979.
Hver er staða þeirra sem fara á lífeyri í dag í smanburði við meintan styrk kerfisins og loforði um áhyggjulaust ævikvöld.
Ég hef skoðað þetta töluvert og rætt við marga lífeyrisþega, get tekið föður minn sem dæmi sem greiddi í kerfið af sínum verkammanna launum alla sína starfsævi. Pabbi var ekki láglaunamaður, vann mikið og er án efa duglegasti og samviskusamasti maður sem ég þekki. Uppskeran í launaumslagi lífeyrissjóðanna getur ekki talist í samræmi við það sem lofað var að standa undir.
Á þessu geta verið margar skýringar en pabbi greiddi í nokkra sjóði sem svo hafa sameinast öðrum í gegnum árin fimmtíu.
Í stuttu máli duga greiðslurnar ekki undir lágmarksframfærslu TR og þarf því almannatryggingakerfið að bæta honum upp nokkra fjárhæð á mánuði svo einhverju óljósu lágmarki sé náð. Sá galli er á gjöf Njarðar að ef þetta lágmark dygði ekki er honum refsað grimmilega fyrir að leita sér lífsbjargar utan kerfisins í formi skerðinga á því sem hann hefur réttilega unnið sér inn með framlagi sínu til okkar sem nú tökum við kyndlinum.
Ég hef rætt við mikið af fólki á hans aldri og skoðað ólíka stöðu þeirra. Það sem mestu munar er hvort viðkomandi hafi tekist að koma sér upp skuldlitlu þaki yfir höfuðið eða ekki. Munurinn er sláandi. Allt frá því að ná fram þolanlegum lífsgæðum, þó lítið megi útaf bregða, yfir í mjög alvarlegan framfærsluvanda eða jafnvel sára fátækt.
Höfum þetta í huga þegar við hlustum á þá sem lofsyngja kerfið eins og rétttrúnaðarsinnar sértrúarsöfnuða og taka málefnalegri gagnrýni eins og guðlasti.
En er þetta kerfi svona alslæmt? Kannski ekki, en það er langt frá því að vera fullkomið og í raun er fátt sem bendir til að það gangi almennt upp.
Þar ræður markaðsáhættan mestu en sjóðfélagar eru algjörlega háðir framtíðar lífskjörum á markaðslegum forsendum. Í dag standa iðgjöldin undir útgreiðslum og munu gera næsta áratuginn hið minnsta. Það hefur því ekkert reynt á kerfið annað en það að ekki virðist vera til áætlun eða til umræðu hvað gerist þegar kerfið verður fullþroskað og seljanleiki á mörkuðum verður sjóðfélögum óhagstæður eða djúpar niðursveiflur munu þrýsta sjóðunum út í brunaútsölur á eignum til að standa við skuldbindingar sínar.
Hvaða áhrif mun það hafa á réttindi þeirra kynslóða?
Við vitum ekkert um raunverulegt virði eigna lífeyrissjóðanna fyrr en þær verða seldar, ekki satt? Sagan hefur kennt okkur að markaðir munu sveiflast með tilheyrandi kreppum og kerfishrunum.
Er hægt að bjarga þessu kerfi og hvernig verður það gert? Já það er hægt. Fyrst verðum við að viðurkenna vandann og setjast niður og fara í heildarendurskoðun á lífeyriskerfinu, kostum þess og göllum, og hvaða leiðir eru bestar til að tryggja betur réttindi og jafna þau frekar til framtíðar.
En þá að tölulegum staðreyndum (teknar úr ársreikningum lífeyrissjóða, reiknivélum,tekjublaði frjálsrar verslunnar og Seðlabanka íslands.)
Með hækkun iðgjalda í 15,5% átti að tryggja 74-76% meðallaunaréttindi eftir 67 ára aldur miðað 40 ára inngreiðslu.
Við greiðum hinsvegar mun meira inn í kerfið og mun lengur. Þeir sem komast áfallalaust á lífeyri, og hafa greitt alla starfsævina greiða, í að meðaltali 50 ár en ekki 40 ár eins og kerfið reiknar.
Þetta þýðir að reiknuð réttindi eru í raun mun hærri og skila sem dæmi hjá einum stærsta sjóðnum um 106% meðallaunaréttindum miðað við 50 ára inngreiðslu.
Þetta gefur sterklega til kynna að kerfið okkar sé nú þegar offjármagnað og til að færa enn frekari rök fyrir því munu 4% og allt að 6% viðbótarlífeyrissparnaður, (samtals 21,5% iðgjöld) færa sömu meðallaunaréttindi í allt að 168%.
Þetta er hljómar ótrúlega og þetta er ótrúlegt kerfi. Það dettur varla nokkrum manni í hug að sjóðunum takist að standa við þessi loforð með því að reiða sig alfarið á markaðslegar forsendur?
Af orðræðunni að dæma má því álykta að helstu varðhundar núverandi kerfis séu haldnir einhverskonar Ponzi heilkennum.
En hvað með samtrygginguna og meðallaunaréttindin?
Því er statt og stöðugt haldið fram að samtryggingakerfið sé fyrir láglaunafólkið og sé öryggisnet þeirra tekjulægstu.
Önnur eins öfugmæli eru varla til. Núverandi kerfi elur á mismunun og misskiptingu, þá sérstaklega á þeim sem eru undir meðaltekjum á starfsævinni sem eru t.d. einu hóparnir sem lenda í skerðingum núverandi kerfis.
Við erum með skattkerfi sem byggir á því að allir greiði sama hlutfall af tekjum fyrir utan þá sem hærri eru, greiði hærra hlutfall.
Við vitum þó að ríkasti minnihlutinn kemst að mestu hjá því að greiða skatta eða sambærilegt hlutfall og við hin til samfélagsins en það er önnur umræða.
Skattkerfið er því einskonar samtryggingarkerfi þar sem við eigum öll sama rétt á sömu grunnþjónustu án tillits til tekna eða stöðu.
Þegar kemur að lífeyriskerfinu er annað uppá teningnum.
Hvaða samtrygging er í því að láglaunakonan fái sama hlutfall af lágum meðaltekjum sínum og bankastjórinn fær af sínum eftir að vinnuskyldu líkur?
Og hvor þeirra er líklegri til að koma yfir sig skuldlausu þaki eða eiga umfram sparnað eftir starfsævina?
Hvor þeirra er líklegri til að þurfa hærri framfærslu til að standa undir húsnæðiskostnaði og öðrum nauðsynjum þegar á lífeyri er komið?
Hvaða samtrygging er í því?
Nýlega fékk fráfarandi bankastjóri Arion banka 150 milljónir í starfslokagreiðslu sem jafngildir 312.500 kr. Launum, á mánuði, í 40 ár. Því má ætla að eftirlaunaréttindi bankastjórans fráfarandi hafi jafnframt aukist sem nemur vinnuframlagi ræstingakonu í fullu starfi í 40 ár eða heila starfsævi.
Þetta var greiðsla fyrir að hætta störfum vegna þess að afkoma bankans, undir hans stjórn, var undir væntingum. Mánaðarlaun hans voru árið 2018 rúmar 5,6 milljónir á meðan lágmarkslaun voru rétt að merja 300 þúsund kallinn.
Ef við setjum þetta í samhengi við þau réttindi sem ávinnast innan lífeyrissjóðakerfisins er hægt að álykta sem svo að orðið samtrygging á ekki við þegar kemur að lífeyrissjóðum, nema þá helst sem öfugmæli.
Er kerfið orðið of íþyngjandi?
Heildareignir lífeyrissjóða eru komnar í 4.700 milljarða þ.a. eru innlendar eignir 3.351 milljarður. Reiknuð ávöxtunarkrafa sjóðanna er 3,5% til að standa undir 74-76% (áður 56%) meðallaunaréttindum.
Þetta þýðir að hagkerfið, fyirrtækin og einstaklingar, þurfa að standa undir ríflega 117 milljarða ávöxtunarkröfu sjóðanna sem er til viðbótar þeim 170 milljörðum sem tekin eru í iðgjöld á ári hverju og fer hækkandi.
Miklar innlendar eignir sjóðanna gera því ríka kröfu á aukna arðsemi af innlendum fjárfestingum þeirra. Þetta skilar sér í hærri vöxtum (minni lækkun).
Þó markaðsvextir hafi lækkað mikið undanfarið hafa lífeyrissjóðir aukið gríðarlega álagningu sína ofan á markaðsvexti, þó svo þeir hafi lækkað mikið hefur lækkunin því aðeins skilað sér að hluta til neytenda ekkert ósvipað því og olíufélögin gera þar sem ávinningur af gengisstyrkingu og lækkun á heimsmarkaði virðist skila sér seint og illa til neytenda öfugt við það þegar þróunin er í hina áttina.
Há ávöxtunarkrafa hefur því neikvæð áhrif á vöruverð, vexti, kaupmátt og kostnað fyrirtækja.
Þetta myndar hvata til að halda launum niðri og álagningu uppi. Aukin áhættusækni í stað þess að fjárfesta í innviðum og leggja áherslu á lífsgæði og kaupmátt allra sjóðfélaga, alla ævi, í stað þess að einblína eingöngu á hugmyndafræði sem margt bendi til að sé komin í þrot.
Sjóðirnir hafa samt aukið erlendar eignir sínar, sem er tvíeggja sverð, þar sem rekja má veikingu krónunnar síðasta árs til aukinna umsvifa lífeyrissjóða í erlendum fjarfestingum. Veikingin skilar sér svo hærra vöruverði og lægri kaupmætti greiðandi og þiggjandi sjóðfélaga.
Yfirbygging og rekstrarkostnaður.
Í dag eru 22 lífeyrissjóðir með aðild að Landsabandi lífeyrissjóða.
Þegar mest lét voru sjóðirnir 97.
Þeim hefur farið fækkandi, nú síðast með sameiningu tveggja sjóða í lífeyrissjóðinn Birtu. Jákvætt en að sama skapi algjörlega galið af aðeins 360.000 manna þjóð að vera með alla þessa lífeyrissjóði og alla þessa yfirbyggingu.
Sem dæmi má nefna að árið 2016 greiddu 11 stærstu lífeyrissjóðirnir 43 æðstu stjórnendum sínum ásamt stjórnarmönnum rúmlega 940 milljónir í laun.
Árið 2018 var þessi sami kostnaður kominn yfir einn milljarð.
Annar rekstrarkostnaður ásamt uppgefnum og áætluðum fjárfestingargjöldum nam rúmlega 13,7 milljörðum króna árið 2016 hjá 11 lífeyrissjóðum af 22 en er komin yfir 15 milljarða hjá þessum 11 fyrir árið 2018 og eru þetta varlega áætlaðar tölur sem eru teknar úr ársreikningum sjóðanna.
Það eru fjölmargir spenar á kerfinu og margir sem sjúga fast.
Auðvitað skiptir máli að hafa góða stjórnendur. Það er hinsvegar mjög erfitt og langsótt að mæla árangur stjórnenda lífeyrissjóða.
Það er til dæmis erfitt að bera saman afkomu þeirra við úrvalsvísitölur til að sjá hvort þeir séu að standa sig betur eða verr gagnvart markaðnum.
Þetta ógagnsæi er líklega ekki tilviljun en mjög óalgengt er að virkum fjárfestingasjóðum vegni betur en vísitölusjóðum til lengri tíma litið.
Það kom því heldur flatt uppá stjórnendur lífeyrissjóðakerfisins þegar RUV tók viðtal við eina stjórnanda lífeyrissjóð opinberra starfsmanna í Nevada fylki í Bandaríkjunum sem sagðist einmitt gera sem minnst í starfi þar sem sjóðurinn fjárfestir nær eingöngu í vísitölusjóðum sem almennt taka mjög lágar þóknanir og fjárfesta eingöngu í fyrirtækjum sem úrvalsvísitölur byggja á.
Rökin fyrir því voru einmitt þau að til lengri tíma kæmi þetta betur út. Þetta er mjög áhugaverð nálgun og hefur Steve vakið mikla athygli um allan heim.
Það kom ekki á óvart að kerfið tók honum sem argasta trúleysingja og kepptust stjórnendur íslenskra lífeyrissjóða við að rakka hann niður og fordæmda RUV fyrir að ræða við hann.
Við hjá VR reyndum að bjóða honum til landsins til að halda fyrirlestur og kynna betur fyrir okkur hvernig sjóður sem er jafn stór og allt íslenska lífeyriskerfið getur vegnað svona vel en með svo litla yfirbyggingu.
Í stuttu máli fékk Steve Edmundson ekki heimild frá sérstakri siðanefnd Nevada fylkis að þiggjast slíkt boð eða boðsferðir almennt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar.
Einhver yrðu harmakveinin ef slíkri nefnd yrði komið á hér heima.
Við hljótum að vera sammála um að nú sé tími til að staldra við og endurskoða kerfið og sjá hvert það leiðir okkur. Til þess þurfum við fjölbreyttan hóp af frjóu, réttsýnu og vel hugsandi fólki ásamt þeim sem reynslu hafa af núverandi kerfi og hafa greitt í það áratugum saman. Það er ekki seinna vænna eftir 50 ár af sömu hugmyndafræðinni.