Héraðssaksóknari hefur ákært athafnamanninn Sverri Einar Eiríksson fyrir skattsvik og að standa ekki skil á opinberum gjöldum. Er hann sakaður um að hafa svikið ríkissjóð um greiðslur upp á rétt tæpar 60 milljónir króna með athæfi sínu.

Brotin sem Sverrir Einar er ákærður fyrir voru á árunum 2021 til 2024 og varða rekstur einkahlutafélaganna Þaks, byggingafélags og SG8. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá ákærunni og þar segir:
,,Sverrir Einar var árið 2022 dæmdur fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti í rekstri einkahlutafélaganna BHG, Sogið veitinga og Jupiter Gistingu. Þá var hann dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi. Honum var sömuleiðis gert að greiða 64 milljóna króna sekt eða að sæta fangelsisvist í 360 daga.
Athafnamaðurinn hefur meðal annars komið að rekstri Nýju Vínbúðarinnar, veitingastaðarins Þrastalundar í Grímsnesi, Brim Hótel og Bankastræti Club, sem áður hét B5.“

