Nú eru inniliggjandi 42 sjúklingar með COVID, þar af 33 með virkt smit. Á gjörgæslu eru nú 8 sjúklingar og 4 þeirra í öndunarvél.
Í gær voru 4 innlagnir og 5 útskriftir. Nú liggja COVID sjúklingar á 9 deildum spítalans og eru miklar annir í kringum það verkefni ásamt öllum venjubundnum verkefnum.
8.076 eru í fjarþjónustu COVID göngudeildar, þar af 2.621 barn. 189 eru gulir og enginn rauður. Af starfsmönnum er það að frétta að nú eru 140 í einangrun og 115 í sóttkví – af þeim eru 50 í vinnusóttkví.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Gæðaskjal um afléttingu einangrunar inniliggjandi sjúklinga hefur verið uppfært.
2. Gæðaskjal um sóttkví B1 hefur verið uppfært og er fólk beðið um að kynna það vel fyrir þeim sem yfirmenn kveðja til vinnu í sóttkví.
3. Frá og með mánudeginum 17. janúar verða sýnatökur fyrir starfsmenn á Hringbrautarsvæðinu á Eiríksgötu 37 kl. 9:00 alla virka daga. Þeir sem bóka sig í sýnatöku á Landspítala eða fá strikamerki frá rakningarteymi spítalans geta nú valið um þrjá staði: Birkiborg, Eiríksgötu eða Suðurlandsbraut.
4. Fullbólusettir starfsmenn sem koma til starfa eftir COVID sýkingu eiga að vinna í sóttkví C í 7 daga eftir að einangrun lýkur. Óbólusettir starfsmenn eiga að vera frá vinnu í 14 daga og mega þá koma inn í sóttkví C í 7 daga. Sækja þarf um þessa sóttkví til farsóttanefndar.
5. Farsóttanefnd beinir þeim eindregnu tilmælum til starfsmanna að nota ekki heimapróf eða önnur hraðgreiningapróf heldur fara rakleiðis í PCR próf ef minnsti grunur vaknar um smit.
Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn fagna hertum samkomutakmörkunum og bindur vonir við að þær skili tilætluðum árangri.