Bókunarstaða lofar mjög góðu
Skuggi heimsfaraldurs víkur nú fyrir bjartari tíð. Ferðaþjónusta á Íslandi er nú í lok ársins 2022 nálægt því að ná sínum fyrri styrk, sem öflugasta útflutningsgrein okkar Íslendinga.
Viðspyrna greinarinnar hefur verið ævintýri líkust og hraðari en nokkur þorði að vona. Þessi ánægjulegi viðsnúningur er gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla Íslendinga – enda hafa mismunandi sviðsmyndir hvað varðar endurkomu erlendra ferðamanna verið mikilvægasta breytan í flestum hagspám sem gerðar voru fyrir árið sem er að líða. Það er líklegt að endanleg niðurstaða verði betri en björtustu spár.
Það er sérlega ánægjulegt að svo virðist sem Íslandi sé að ganga einna best í endurreisn ferðaþjónustu á heimsvísu – það er, að áfangastaðurinn Ísland sé að koma sterkar til baka heldur en Evrópa í heild (mælt í komum erlendra ferðamanna „International tourist arrivals“- UNWTO) og miklu sterkar en flestir áfangastaðir annars staðar í heiminum. Þannig er reiknað með að við náum á þessu ári 85-90% af þeim fjölda (á heimsvísu er reiknað með 65%) sem kom til landsins árið 2019 og að útflutningstekjurnar verði um 95% af tekjum þess árs. Þetta er vissulega frábær árangur.
Af hverju hann skýrist, getum við aðeins gert okkur í hugarlund. Þar eru þó örugglega margir samverkandi þættir að verki, sem eflaust skýrast betur síðar.
Bókunarstaða lofar mjög góðu
Bókunarstaða fyrir næsta ár, lofar mjög góðu og satt að segja muna elstu menn í greininni varla eftir öðru eins. Þó ber að hafa í huga, að stór hluti ferðaþjónustu fer fyrst upp í hillu hjá endursöluaðilum erlendis, áður en neytendur kaupa síðan hinar ýmsu útfærslur hennar. Það er hins vegar mjög gott merki, að endursöluaðilar erlendis hafi þessa trú á Íslandi og vilji tryggja sér þjónustu fyrir sína viðskiptavini. Það er einnig nauðsynlegt að hafa bak við eyrað víðsjárverða stöðu sérstaklega í Evrópu – stríðsrekstur, orkurkrísu, óvenjulega háa verðbólgu á markaðssvæðum okkar og verðhækkanir hér innanlands, sem vissulega gætu haft áhrif á eftirspurn. Ef faraldurinn hefur kennt okkur eitthvað, þá er það að fagna ekki of snemma!
Taka þarf markviss skref
Um áramót lítum við gjarnan um öxl og hugsum fram á veginn á sama tíma. Ferðaþjónusta á Íslandi stendur nú á enn einum tímamótunum, þar sem þörf er á að tekin séu markviss skref við að þróa greinina í þá átt sem við viljum beina henni. Það eru ótal hlutir sem munu verða í brennidepli næstu misserin. Það á við um þætti innan greinarinnar sjálfrar, sem og þætti í ytra umhverfi hennar – sem hafa gríðarleg áhrif á framgang hennar og framtíð.
Má þar nefna hvers konar gjaldtöku af ferðamönnum – þar sem hugmyndaauðginni eru engin takmörk sett, skort á starfsfólki af öllu tagi, menntun og þjálfun í ferðaþjónustu – sem við einfaldlega verðum að setja á oddinn. Einnig má nefna skort á hagnýtum rannsóknum, skipulag í tengslum við skemmtiferðaskip, sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, vetrarþjónustu í vegakerfinu – ætlum við að vera heilsársáfangastaður eða ekki? Síðast en ekki síst umhverfis- og orkumál, bæði í tengslum við orkuskipti og orkuinnviði, en einnig fyrirætlanir um að reisa vindorkuver víða um land, sem líklegt er að muni að hluta til lenda í árekstrum við hagsmuni ferðaþjónustu.
Aukið pláss í hugum og vitund Íslendinga
Ferðaþjónusta á Íslandi er kornung atvinnugrein – einkum ef hún er borin saman við aðrar burðaratvinngreinar þjóðarinnar. Hún hefur vaxið hratt – og hraðar en almenn þekking á henni, hraðar en meðvitundin um aukið mikilvægi hennar, hraðar en áhugi og framtakssemi stjórnkerfisins, hraðar en öll stuðningskerfi og innviðir sem þurfa að vera til staðar, hraðar en aðlögun allra okkar kerfa að breyttum aðstæðum í atvinnulífi okkar Íslendinga.
Sjávarútvegur og landbúnaður hafa fylgt þjóðinni frá örófi alda – „til sjávar og sveita“ – stóriðja hefur verið stunduð á Íslandi frá því á sjöunda áratug síðustu aldar. Við höfum kynslóðum saman starfað við sjávarútveg og landbúnað – þær atvinnugreinar eru greiptar í þjóðarvitundina og sjálfsmynd Íslendinga. Allt orðfæri okkar, allt frá orðatiltækjum og málsháttum og upp í daglegt mál vísar oft til þessa hefðbundnu atvinnugreina. Hvert mannsbarn á Íslandi veit hvað þær eru og þýða. Langflestir Íslendingar eiga forföður- og/ eða móður sem hefur starfað til sjávar, við fiskvinnslu eða við landbúnaðarstörf.
Öll umgjörð okkar og kerfi – stjórnsýsla, menntakerfi, vegakerfi, hafnir, upplýsingasöfnun, rannsóknir og margt fleira eru samofin þessum atvinnugreinum – þær eru í vitundinni og blóðinu. Öðru máli gegnir um ferðaþjónustu. Við getum nafngreint þá örfáu Íslendinga sem hafa átt ömmu eða afa sem störfuðu við ferðaþjónustu. Öllu fleiri eiga mömmu eða pabba – en langflestir eru afkomendur fólks úr öðrum atvinnugreinum. Hefðin er einfaldlega ekki til – ferðaþjónusta er ekki í erfðaefni Íslendinga eins og margra annarra þjóða, þar sem ferðaþjónusta á sér miklu lengri sögu.
Þessu breytum við auðvitað ekki svo glatt, en það er gott að vera sér meðvitaður um þetta. Við þurfum einfaldlega að taka stærri stökk og hleypa ferðaþjónustu að öllum borðum, þar sem ákvarðanir eru teknar. Hagsmuni hennar þarf alltaf að hafa í huga – og alls ekki síður en hagsmuni annarra burðaratvinnugreina þjóðarinnar.
Uppgangur ferðaþjónustunnar var undirrót hagvaxtar síðasta áratugar og bætti lífskjör á Íslandi svo um munaði. Til að tryggja að svo verði áfram þarf hún og mikilvægi hennar einfaldlega meira pláss í hugum og í vitund Íslendinga.
Gleðilegt nýtt ferðaár
Á nýju ári verður kláruð aðgerðaáætlun fyrir ferðaþjónustu á vegum Ferðamálaráðuneytisins. Við hjá Samtökum ferðaþjónustunnar bindum miklar vonir við það verkefni. Að því loknu mun vonandi liggja fyrir hvert við stefnum og hvernig við ætlum að ná markmiðum okkar – þar sem yfirmarkmiðið er auðvitað að ferðaþjónusta skapi áfram gríðarleg verðmæti fyrir þjóðarbúið.
Ég óska félögum í Samtökum ferðaþjónustunnar og landsmönnum öllum gleðilegs nýs ferðaárs – hvort sem þeir eru til sjávar eða sveita, til dala eða fjalla, bæja eða borga.
Bjarnheiður Hallsdóttir
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar