Samtök ferðaþjónustunnar fagna hertu eftirliti með heimagistingu
Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar fagnar sérstöku átaksverkefni um hert eftirlit með
heimagistingu sem ríkisstjórnin samþykkti nýverið, og þakkar ráðherra ferðamála fyrir
frumkvæði í málinu.
Samtök ferðaþjónustunnar hafa lengi bent á þörfina fyrir stóraukið eftirlit með leyfisskyldri
gististarfsemi, enda er ljóst að umfang ólöglegrar gististarfsemi undir merkjum Airbnb og
sambærilegra deilikerfa skekkir samkeppnisumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja.
Það er ótækt að óábyrgir aðilar komist upp með að reka gistiþjónustu í samkeppni við ábyrgan
atvinnurekstur án þess að skila sköttum og skyldum, en þannig fara forgörðum um 2 milljarðar
króna sem annars gætu nýst til uppbyggingar innviða í ferðaþjónustu.
Brýnt er að fjármagnið sem lagt er í verkefnið skili sér einnig í eftirlit á ólöglegri gististarfsemi
utan höfuðborgarsvæðisins.
Átaksverkefni um hert eftirlit er því mikilvægt fyrsta skref í því að koma ólöglegri gististarfsemi
upp á yfirborðið.