Alþingi samþykkti á dögunum lög um breytingu á lögum um grunn- og framhaldsskóla sem miða að því að styrkja lagastoð og heimildir fagráðsráðs eineltismála. Fagráð eineltismála starfar nú bæði fyrir grunn- og framhaldsskóla en vísa má eineltismálum til ráðsins þegar ekki finnst fullnægjandi lausn á þeim innan skóla eða sveitarfélags.
Ráðið veitir álit sín á grundvelli gagna og upplýsinga sem því berast. Slík álit hafa meðal annars að geyma leiðbeiningar til aðila skólasamfélagins, svo sem foreldra, um hvernig vinna megi að úrlausn mála með hagsmuni barna að leiðarljósi.
Í lögunum er meðal annars kveðið á um skýrari heimildir ráðsins til þess að vinna með persónuupplýsingar og heimild til að takmarka aðgang aðila að gögnum ef talið er að slíkt getis skaðað hagsmuni barns, til samræmis við ákvæði barnaverndarlaga. Aukinheldur er fjallað um skipan ráðsins og hæfniskröfur sem gerðar eru til þeirra sem þar eiga sæti.
Fagráð eineltismála er ekki stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga þar sem álit þess eru ráðgefandi. Niðurstöður þess eru því ekki skuldbindandi fyrir aðila máls gagnvart öðrum úrræðum sem lög og reglur kunna að bjóða upp á.