Kvikmyndin Snerting verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna á næsta ári, að því er segir í tilkynningu frá Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA).
Fréttatíminn hvetur fólk til að sjá myndina því hún kemur verulega á óvart og fær fullt hús stiga í stjörnugjöf.
Kvikmyndin er mjög vel gerð og leikarar mjög góðir í að túlka þetta ferðalag sem aðal persóna myndarinnar Kristófer (Egill Ólafsson) fer í á milli heimsálfa til þess að hitta æskuástina. Kristófer sem er sjötugur ekkill og er kominn á eftirlaun, leggur óvænt upp í ferð án fyrirheits, þegar heims-faraldurinn er skollinn á.
Í von um að finna skýringu á því hvað orðið hafi um kærustu hans sem hvarf sporlaust frá London 50 árum áður. För hans leiðir hann yfir hálfan hnöttinn og alla leið til Japans við lítinn fögnuð fjölskyldu hans.
- Leikstjóri og handritshöfundur: Baltasar Kormákur
Helstu leikarar: Egill Ólafsson, Pálmi Kormákur, Mitsuki Kimura, Masahiro Motoki
Tegund myndar: Drama
Umsögn dómnefndar ÍSKA í heild sinni:
Snerting er í senn epísk og afskaplega mannleg saga um tilfinningar, ást, eftirsjá og litlu augnablikin í lífi hvers manns sem öðlast merkingu þegar horft er til baka.
Í Snertingu er unnið með klassísk þemu og frásagnarstef á nýstárlegan og listrænan máta. Mögulega er hægt að endurheimta ástina sem rann aðalpersónunum úr greipum áratugum fyrr, en spurningin hvað það þýðir og hvað hefur glatast liggur myndinni til grundvallar.
Á sama tíma og unnið er með þessi klassísku stef eru þau framsett með óvenjulegri sjónrænni fágun og næmni, og hinn þverþjóðlegi söguheimur er kallaður fram ekki sem bakgrunnur heldur burðarstólpi í sjálfri ástarsögunni; inn í viðkynningu Miko og Kristófers eru þræddir sögulegir og menningarlegir þættir sem bæði sameina og sundra.
Tengingarnar milli parsins og ástin sjálf birtast í lýsingu og sjónarhorni, birtunni sem umlykur líkama þeirra og hvernig þeir samtvinnast og snertast, í rýmisvenslunum í eldhúsinu alveg eins og því sem er sagt.
Snerting er hrífandi saga um mennskuna, menningarheima sem skarast á og leitina að svörum við ósvöruðum spurningum. Atvik og örlög heillar mannsævi fléttuð saman í órofa heild.
Myndin var valin af dómnefnd ÍSKSA sem í sátu fulltrúar helstu fagfélaga íslenska kvikmyndaiðnaðarins, auk fulltrúa kvikmyndahúsa, kvikmyndagagnrýnenda og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.