Fjölmörg dæmi eru um að leigusamningar feli í sér greiðslubyrði yfir 70% af ráðstöfunartekjum eins og fram kemur í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Stjórn og Húsnæðisnefnd VR leggur til að stjórnvöld setji samræmdar reglur hvort sem landsmenn búi í eigin húsnæði eða í leiguhúsnæði þannig að húsaleiga megi ekki fara upp fyrir skilgreint hámark af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum.
Seðlabanki Íslands hefur nýverið sett reglur um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur einstaklinga. Samkvæmt þeim reglum skal hámark nýrra fasteignalána vera 35% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum og 40% fyrir þá sem eru að kaupa fasteign í fyrsta sinn.
Á leigumarkaðnum gilda engar slíkar reglur og getur leigusali skuldbundið leigjanda til að greiða ótakmarkaðan hluta af sínum tekjum í húsaleigu. Fjölmörg dæmi eru um að leigusamningar feli í sér greiðslubyrði yfir 70% af ráðstöfunartekjum eins og fram kemur í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Stjórn og Húsnæðisnefnd VR leggur til að stjórnvöld setji samræmdar reglur hvort sem landsmenn búi í eigin húsnæði eða í leiguhúsnæði þannig að húsaleiga megi ekki fara upp fyrir skilgreint hámark af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum.
Þann 3. apríl árið 2019 drógu stjórnvöld Íslands upp mikla glansmynd um víðtækan stuðning þeirra við nýgerða Lífskjarasamninga verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Þessi fallega mynd sem dregin var upp átti að vera hornsteinn samninganna og var að mörgu leyti forsenda þess að allir aðilar gátu sætt sig við þá og forystufólk beggja vegna borðs gátu farið í sitt bakland og hvatt félaga til að greiða atkvæði með samþykkt.
Þetta hefur nú brugðist og reynst tálsýn, og ekki í fyrsta sinn, en samningsaðilar hafa engu að síður ákveðið að sýna þá ábyrgð að láta samningana halda og hleypa hér ekki öllu í uppnám á viðkvæmum tímum en forsendubrestir samninganna snúa allir að stjórnvöldum.
Stjórn og Húsnæðisnefnd VR skorar á nýja ríkisstjórn að standa við loforðin sem gefin voru og eftir standa í Lífskjarasamningunum.
Í Lífskjarasamningunum lofuðu stjórnvöld að ákvæði húsaleigulaga yrðu endurskoðuð til að bæta réttarstöðu leigjenda, meðal annars hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar og bættri réttarstöðu leigjenda við lok leigusamnings. Einnig hafa stjórnvöld gefið fyrirheit um að stórauka lóðarframboð t.d. með skipulagi á íbúðarbyggð að Keldum í Reykjavík.
Auðvitað stendur ekki steinn yfir steini um efndir þessara hástemmdu loforða og gerir stjórn og Húsnæðisnefnd VR þá kröfu á ný stjórnvöld að þau tryggi tafarlaust:
- Afgreiðslu á frumvarpi félags- og barnamálaráðherra um breytingu á húsaleigulögum nr. 36/1994.
- Stóreflda hagsmunagæslu og vernd leigjenda.
- Aukið framboð leiguhúsnæðis og lóða til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði.
- Húsnæðisöryggi leigjenda verði tryggt.
- Að jafnaður verði aðstöðumunur eiganda og leigjenda varðandi greiðslubyrði vegna skuldbindinga hvort sem er til kaupa eða leigu á húsnæði.
En auðvitað krefjumst við þess fyrst og fremst að stjórnvöld standi við sín orð í samningum svo þau grafi ekki undan öllu trausti sem samningsaðilar vinnumarkaðarins verða að geta borið til þeirra þegar samið er um kjör landsmanna. Það gera öll ábyrg stjórnvöld.
Stjórn og Húsnæðisnefnd VR