Álit Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2024, Athugun Samkeppniseftirlitsins á málefnum er varða háttsemi Ísteka ehf. á blóðtökumarkaði – Tilmæli til fyrirtækisins og stjórnvalda
Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt álit nr. 1/2024, Athugun Samkeppniseftirlitsins á háttsemi Ísteka ehf. á blóðtökumarkaði, þar sem athygli matvælaráðuneytisins er vakin á álitaefnum í starfsemi sem tengist blóðtöku úr hryssum og tilmælum beint til ráðuneytisins sem nýst geta stjórnvöldum á þessu sviði. Samhliða er athygli fyrirtækisins Ísteka ehf. (hér eftir Ísteka) vakin á sterkri stöðu þess á umræddum mörkuðum, þeim skyldum sem því fylgja að samkeppnisrétti og aðgerðum sem stuðlað geta að því að starfsemin samræmist samkeppnislögum. Loks er í áliti þessu að finna ábendingar til bænda á þessu sviði.
Tilefni álitsins er að Samkeppniseftirlitinu hafa borist erindi og ábendingar frá bændum sem hafa selt Ísteka merarblóð, þess efnis að fyrirtækið hamli samkeppni með háttsemi sinni sem m.a. felst í því að fyrirtækið beiti yfirburðarstöðu sinni til að komast hjá því að semja um viðskipti við bændur á eðlilegum forsendum, verðleggi blóð einhliða og veiti ekki upplýsingar um þær mælingar sem framkvæmdar séu á hryssum eða blóði, sem fyrirtækið kaupi af bændum.
Staða Ísteka er gríðarlega sterk og hefur félagið þá sérstöðu að vera eini starfsleyfishafi fyrir framleiðslu lyfjaefnis úr merablóði, er jafnframt eini kaupandi merarblóðs hér á landi og stundar samhliða sjálft blóðtöku úr eigin blóðmerum.
Ljóst er að staða Ísteka gagnvart bændum er sterk. Slík sérstaða kallar á að vandað sé til verka á öllum sviðum. Leggur hún jafnframt þær skyldur á fyrirtækið að búið sé svo um hnútana að starfsemi og rekstur Ísteka hamli ekki samkeppni. Samhliða er mikilvægt er að ráðuneytið hafi þetta í huga við frekari reglusetningu eða önnur afskipti þess af markaðnum.
Með hliðsjón af mögulegum markaðsbrestum á hlutaðeigandi mörkuðum og í því skyni að draga úr samkeppnisröskun sem leitt getur af stöðu Ísteka telur Samkeppniseftirlitið koma til álita að gripið verði m.a. til eftirfarandi aðgerða:
- Komið verði á fjárhagslegum aðskilnaði milli starfsþátta Ísteka.
- Bændur sem stunda blóðmerahald og eru í viðskiptum við Ísteka hafi aðgang að upplýsingum um eigin hryssur og blóðtökur úr þeim.
- Tryggt verði að viðskiptasamningar Ísteka við bændur hafi ekki að geyma samkeppnishamlandi samningsákvæði.
- Hugað verði að öðrum aðgerðum sem styrkt geti stöðu bænda gagnvart viðsemjendum á þessu sviði.
Það hvíla miklar skyldur á fyrirtækjum í einokunar- eða markaðsráðandi stöðu að sjá til þess að starfsemi þeirra sé í samræmi við samkeppnislög í hvívetna. Framangreindar aðgerðir væru til þess fallnar að stuðla að því. Jafnframt beinir Samkeppniseftirlitið því til matvælaráðuneytisins að taka afstöðu til þess með hvaða hætti stjórnvöld geti stuðlað að bættum samkeppnisaðstæðum samkvæmt framangreindu. Hafa ber í huga í þessu sambandi að aðgerðir af þessu tagi geta unnið með öðrum markmiðum stjórnvalda um ábyrga og heilbrigða atvinnustarfsemi.
Með útgáfu álitsins hefur Samkeppniseftirlitið jafnframt ákveðið að aðhafast ekki frekar á þessu stigi, s.s. með ákvörðun um formlega íhlutun í málinu. Slík athugun, þ.á m. athugun á mögulegum brotum á banni við misnotkun á markaaðsráðandi stöðu, hefði kallað á ítarlegri rannsókn. Þessi forgangsröðun verkefna stafar m.a. af því takmarkaða rekstrarsvigrúms sem Samkeppniseftirlitinu er búið til að sinna verkefnum sínum. Hefur Samkeppniseftirlitið opinberlega gert grein fyrir því að verkefnaálag og ófullnægjandi fjárheimildir geri eftirlitinu erfitt um vik að sinna lögbundnum skyldum sínum, sbr. m.a. umsögn Samkeppniseftirlitsins til fjárlaganefndar dags. 14. nóvember 2023.
Bakgrunnsupplýsingar
Álitið er sett með stoð í c-lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga, en samkvæmt ákvæðinu er Samkeppniseftirlitinu ætlað að benda stjórnvöldum á leiðir til að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra aðila á markaði. Jafnframt vísast til 3. gr. reglna nr. 880/2005, um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins, en samkvæmt henni er eftirlitinu heimilt að beina tilmælum til fyrirtækja, samtaka þeirra og opinberra aðila í því skyni að efla virka samkeppni. Samkvæmt 18. gr. samkeppnislaga skal eftirlitið ennfremur vekja athygli ráðherra á því í áliti ef það telur að ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiðum samkeppnislaga eða torveldi frjálsa samkeppni.
Rétt er að árétta að með áliti þessu er einvörðungu fjallað um samkeppnisleg álitaefni er varða blóðtöku úr fylfullum hryssum, enda er það ekki í verkahring Samkeppniseftirlitsins að taka afstöðu til umræðu um dýravelferð, ímynd hrossaræktar eða annarra tengdra atriða sem fjallað hefur verið um á öðrum vettvangi. Á hinn bóginn má leiða að því líkum að það aðhald sem samkeppni getur veitt fyrirtækjum sé til þess fallið að treysta almennt starfsemi á viðkomandi markaði.