„Eftirgjöf án umræðu: Ætlar ríkisstjórn Kristrúnu Frostadóttur að moka skattfé í stríðsvél án þjóðarvilja?“

Það er með ólíkindum að horfa upp á hvernig íslensk stjórnvöld, undir stjórn „Valkyrjanna“ og með algjörlega meðvitundarlausum utanríkisráðherra, stefna að því að samþykkja enn eitt alþjóðlegt skuldbindingaákvæðið – án gagnrýnnar umræðu heima fyrir, án almennrar stefnumótunar, og án minnstu tilraunar til að kanna vilja þjóðarinnar.
Nýjustu fréttir af NATO fundinum benda til þess að bandalagsríkin, undir þrýstingi frá Donald Trump, séu tilbúin að samþykkja að verja 3,5% af vergri landsframleiðslu í bein hernaðarútgjöld.
Fyrir Ísland, sem hefur engan her og byggir varnir sínar á borgaralegri nálgun og diplómatíu, er þetta algjörlega óskiljanlegt. Miðað við áætlaða verga landsframleiðslu Íslands árið 2024 (4.616 milljarðar króna), myndi 3,5% framlag til hernaðarútgjalda kosta íslenska skattgreiðendur 161,6 milljarða króna á ári.
Við erum að tala um upphæð sem gæti byggt upp heilbrigðiskerfið, menntakerfið og innviði framtíðar – en ríkisstjórnin virðist staðráðin í að moka henni í stríðsvél sem við hvorki höfum stjórn á né raunverulega þátttöku í.
Það eru engin rök sem réttlæta að Ísland, ríki án herafla, taki þátt í þessari sjálfseyðingu. Það sem verra er – ríkisstjórnin og utanríkisráðherra virðast hvorki hafa tekið frumkvæði í að gagnrýna tillöguna né boðið upp á neina umræðu innanlands. Þetta er bein eftirgjöf gagnvart þrýstingi BNA, NATO og ESB, og það án þess að nokkur virðing sé borin fyrir íslenskri utanríkisstefnu, sem hingað til hefur byggst á samvinnu, sátt og borgaralegum lausnum.
Í stað þess að spyrja sig: „Hvernig viljum við Íslendingar verja framtíð okkar og þjóðaröryggi?“, virðist íslensk ríkisstjórn spyrja: „Hvernig getum við sagt já sem fyrst og sloppið við óþægindi?“
Við krefjumst þess að þessari málamiðlunartillagu verði hafnað. Við krefjumst opinnar umræðu um afleiðingar þess að binda Ísland við slíka fjárglæfralega hernaðarstefnu. Og við krefjumst ábyrgðar frá ráðherrum sem virðast gleyma hverjum þeir eiga að þjóna.
Ísland úr NATO – það er ein leið!