Ökumenn hvattir til að nota öryggisbeltin
Samgöngustofa hefur hrundið af stað herferð til þess að hvetja ökumenn til að spara sér ekki 2 sekúndur við það að spenna á sig öryggisbeltin. Herferðin heitir 2 sekúndur og varpar hún ljósi á fáránleika þess að nota ekki öryggisbeltin.
Rannsóknir sýna að rétt tæplega 10% Íslendinga nota ekki öryggisbelti eða um 35 þúsund manns þó það taki aðeins 2 sekúndur að spenna þau. Ökumaður sem notar ekki bílbelti er í um átta sinnum meiri hættu á að lenda í banaslysi en sá sem notar beltið.
Þetta sést á samanburði á beltanotkunartíðni annars vegar og tíðni beltanotkunar þeirra sem látast í umferðarslysum hins vegar. Í rannsóknum á banaslysum þar sem fólk hefur ekki notað belti hefur komið í ljós að í langflestum tilfellum hefði viðkomandi bjargast hefði hann notað beltin.
Í samanburði við önnur Evrópulönd eru Íslendingar í 17. sæti hvað varðar almenna notkun öryggisbelta. Það tekur aðeins 2 sekúndur að breyta því og komast í 1. sæti!