Eggert Skúli Jóhannesson framkvæmdastjóri hjálparsamtaka bágstaddra barna gaf á dögunum Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur allan sjóð samtakanna. Anna Pétursdóttir forstöðukona Mæðrastyrksnefndar tók við sjóðnum sem koma mun að góðum notum.
,,Við ákváðum að styrkja Mæðrastyrksnefnd vegna þess að skjólstæðingar hennar eru fyrst og fremst börn og foreldrar þeirra. Nú þegar skólar eru að byrja hjá blessuðum börnunum, getur verið erfitt fyrir tekjulága foreldra, öryrkja og atvinnulausa að standa undir þeim íþyngjandi kostnaði sem fylgir kaupum á skólatöskum, bókum og tilheyrandi. Þá hefur verið birt skýrsla um að á sjötta þúsund börn eigi foreldra sem lifi á tekjum eða bótum sem eru undir fátæktarmörkum, vegna t.d. leigukostnaðar. Jafnframt að þúsundir barna eigi ekki peninga frá foreldrum fyrir mat í skólanum. Mæðrastyrksnefnd mun sjá til þess að þessir peningar komist í góðar hendur, þar sem þörf er fyrir þá.“
Hjálparsamtök bágstaddra barna er sjálfseignarfélag (sem á sig sjálft), þar sem allt er unnið í sjálfboðavinnu og aðstandendur hafa ekki tekið sér eina krónu í laun eða kostnað. Eggert hefur sjálfur gefið samtökunum heimasíðu og vinnu, sem nemur hátt í eina milljón króna. Lögmaður og endurskoðandi hafa staðfest rétt bókhald og reikning félagsins eins og lög mæla fyrir um.
,,Ástæðan fyrir því að okkur datt í hug að stofna þessi samtök er einfaldlega vegna þess að hjarta mitt hefur alltaf slegið með börnum og þeim sem minna mega sín. Ég var t.d. alltaf í stjórnum og stundum formaður í foreldrafélögum í leikskólum og skólum barna minna en ég á sjálfur fimm börn. Að heyra það að opinberar skýrslur gefi þessa óhugnarlegu mynd af bágri stöðu barna í þjóðfélaginu varð svo til þess að samtökin voru stofnuð af sjálfboðaliðum sem vinna allt sitt starf launalaust en uppskera mikla gleði að láta gott af sér leiða.