Mannabein fundust í jörðu á bænum Hóli í Sæmundarhlíð í gær. Þetta kemur fram á vef Feykis, héraðsfréttablaðs Norðurlands vestra.
Starfsmenn RARIK í Skagafirði fundu mannabein og hauskúpu fyrir hádegi í gær og tilkynntu fundinn til Guðmundar Stefáns Sigurðarsonar, minjavarðar Norðurlands vestra.
Guðmundur segir í samtali við Feyki að þar sé um að ræða kirkjugarð sem ekki var vitað um áður. Heimildir séu til um að bænhús hafi verið á jörðinni en ekki kirkjugarður. Búið sé að finna minnst tvær grafir sem eru frá því fyrir árið 1300. Nú verði metið hvort ástæða sé til þess að rannsaka beinin frekar eða grafa þau að nýju.
Guðmundur segir starfsmenn RARIK í Skagafirði einstaklega færa í að finna kirkjugarða og hafi hingað til fundið þrjá slíka. „Þeir eru reyndar með alveg framúrskarandi árangur, RARIK í Skagafirði, að finna kirkjugarða. Þetta er allavega þriðji garðurinn sem þeir finna held ég. Þeir stela oft þrumunni af fornleifafræðingum sem eru að keppast við að leita að þessu og hafa ekkert fyrir því,“ segir Guðmundur í samtali við Feyki.