Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með til rannsóknar andlát stúlku á grunnskólaaldri.
Tilkynnt var um málið um kvöldmatarleytið í gær og í kjölfarið var faðirinn handtekinn í tengslum við það.
Samkvæmt áreiðanlegum og ítarlegum heimildum Fréttatímans um banameinið, þá er það hryllilegt og um að ræða 10 ára gamla íslenska stúlku. Af tillitssemi við aðstandendur verður ekki fjallað ítarlega um málið.
Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.
Uppfært skv. tilkynningu lögreglu: Karlmaður er í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu grunaður um manndráp í gær. Í tilkynningu frá lögreglu segir að stúlka á grunnskólaaldri sé látin.
Maðurinn var handtekinn á Krýsuvíkursvæðinu í gær eftir að hafa sjálfur hringt á lögreglu, samkvæmt heimildum fréttastofu. Stúlkan fannst þar sömuleiðis. Þar voru miklar lögregluaðgerðir fram eftir kvöldi. Lögregla segir að tilkynnt hafi verið um málið um kvöldmatarleytið.