Kílóverð á úrbeinuðu hangilæri og hamborgarhrygg með beini var lægst í Prís samkvæmt úttekt verðlagseftirlitsins á jólamat i síðustu viku. Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á 61 algengri jólavöru í 8 verslunum. Beinlaus hamborgarhryggur og hangilæri með beini fengust ekki í Prís, en aðeins munaði einni krónu á lægsta kílóverði milli Bónus og Krónunnar, Bónus í vil.
Nokkur munur getur verið á verði á kjötvöru en einnig á vöruúrvali milli verslana. Kílóverð á hamborgarhrygg kostaði allt frá 1.698 kr. í Prís upp í 2.899 kr. í Hagkaupum. Vinsælar vörur eru ekki endilega fáanlegar í öllum verslunum og verðbreytingar geta verið tíðar á þessum árstíma. Neytendum er því bent á að hægt sé að nota Nappið til samanburðar eða vöruleit á Verdlagseftirlit.is þar sem öll gögn og nýjustu verð eru aðgengileg.
Verðmunur milli Bónus og Krónunnar er gjarnan ein króna
Verðmunur milli Bónus og Krónunnar er gjarnan ein króna, eins og verðlagseftirlitið hefur áður bent á, en verðmunur milli Bónus og Prís getur verið meiri.
Frá opnun Prís í ágúst í fyrra hefur Bónus verið að meðaltali 5% dýrara en Prís þegar allar vörur sem finnast í báðum verslunum eru bornar saman. Sá verðmunur hefur verið stöðugur frá opnun Prís og sést einnig í jólakjötinu. Ódýrasti hamborgarhryggurinn í Bónus, Bónus hryggur með beini er t.d. 5,9% dýrari en Prís hamborgarhryggur.
Prís hangilæri er hins vegar 1,8% ódýrara en Fjalla hangilæri, sem er ódýrasta hangilærið í Bónus. Í öllum tilfellum er miðað við kílóverð en einnig ber að hafa í huga að ekki er alltaf um sömu vörur að ræða og þá borið saman lægsta kílóverð í verslunum.
Ódýrasta verð á hamborgarhrygg er 1.698 kr/kg.
Lægsta kílóverð hamborgarhryggs með beini var hjá Prís (Prís hamborgarhryggur) – 1.698 kr/kg. Ódýrustu valkostir í Bónus og Krónunni eru um 100 krónum dýrari. Þar er sömuleiðis um sérmerkta vöru að ræða.
Hamborgarhryggur Kjarnafæðis var ódýrastur í Fjarðarkaupum (2.393 kr/kg), en fæst sömuleiðis í Hagkaupum á 2.579 kr/kg. SS hamborgarhryggur er fáanlegur í fjórum verslunum, ódýrastur í Bónus (2.398 kr/kg), en dýrastur í Fjarðarkaupum (2.650 kr/kg). Sömu verslanir bjóða einnig upp á KEA hamborgarhrygg frá 2.689 kr/kg í Bónus til 2.898 kr/kg í Fjarðarkaupum. Þess utan fást umræddir hryggir í Krónunni og Hagkaupum.
Ali hamborgarhryggur er fáanlegur í fimm verslunum. Ódýrasta kílóverð á hryggnum frá Ali var 2.489 kr. í Prís. Einungis munaði einni krónu á verði í Bónus (2.598 kr/kg) og Krónunni (2.599 kr/kg) á meðan verðið var 2.698 kr/kg í Fjarðarkaupum. Dýrastur var Ali hryggurinn í Hagkaupum, 2.899 kr/kg.
Ódýrasta kílóverð á úrbeinuðum hamborgarhrygg var í Krónunni, 2.330 kr/kg samanborið við 2.339 kr/kg í Bónus. Úrbeinaður hamborgarhryggur frá SS var fáanlegur á flestum stöðum, alls í 4 verslunum þar sem lægsta verðið var í Bónus á 2.689 kr/kg. Í Krónunni var hann einni krónu dýrari en fékkst einnig í Hagkaup á 2.999 kr/kg og í Fjarðarkaupum á 3.058 kr/kg.
Hangikjötið ódýrast í Prís
Lægsta verð á úrbeinuðu hangilæri var í Prís, 4.899 kr/kg en ódýrasta kílóverð í Bónus var á 4.989 kr/kg og 4.999 kr/kg í Krónunni. KEA úrbeinað hangilæri mátti finna í fimm verslunum, það var ódýrast í Bónus á 7.179 kr/kg en verðið í Krónunni fyrir sömu vöru var eins og algengt er einni krónu hærra en hæst var það í Fjarðarkaupum, 7.998 kr/kg.
Kílóverð á hangilæri með beini er nokkuð lægra en á beinlausu. Sé ætlunin að finna ódýrasta kílóverð þá var kofareykta hangilærið frá Kjarnafæði lægst 3.598 kr/kg í Bónus. Ódýrasta lærið í Krónunni var frá KEA og kostaði 3.599 kr/kg en í Fjarðarkaupum var hangilæri frá Kjarnafæði á 3.890 kr/kg.
Birkireykt hangilæri frá SS var fáanlegt í flestum verslunum. Lægsta verðið var í Bónus, 4.098 kr/kg en það var einnig fáanlegt á Krónunni (4.099 kr/kg), Fjarðarkaupum (4.159 kr/kg) og Hagkaupum (4.299 kr/kg).
Léttreyktur lambahryggur var ódýrastur í Prís, hvort sem er frá KEA eða SS. Hálfur léttreyktur hryggur frá KEA fékkst í alls 7 verslunum og verðmunur gat numið allt að 19% þar sem kílóverðið var frá 4.875 kr/kg í Prís upp í 5.799 kr/kg í Hagkaup.
Lítill verðmunur á kalkún
Fyrir þá sem ætla ekki að bjóða upp á reyktar og saltaðar kjötvörur er ýmiss annar hátíðarmatur á boðstólnum. Kalkúnn frá Reykjabúinu var fáanlegur í sex verslunum en lægsta kílóverðið í könnuninni var í Prís, 2.298 kr/kg. Lítill verðmunur var á kalkún milli verslana og var hann fáanlegur á undir 2.400 kr/kg í Bónus, Krónunni og Fjarðarkaupum. Hæstu verðin voru í Nettó og Hagkaupum þar sem hann kostaði 2.499 kr/kg.
Ódýrasta kílóverð á nautalundum var í Prís, 5.960 kr. og í Bónus á 5.998 kr. Í Krónunni var verðið 6.198 kr., 6.199 kr. í Nettó og 6.999 kr. í Kjörbúðinni. Töluverður munur getur verið á verði á nautalundum, bæði milli verslana og innan verslana sem skýrist af ólíkum vörum og ólíkum uppruna. Í Bónus mátti einnig finna nautalundir á allt að 8.998 kr/kg og í Krónunni á allt að 9.099 kr/kg.
Ódýrustu andabringuna mátti finna í Nettó, Barbary andabringa á 3.298kr/kg, en þar var hún á afslætti þegar Verðlagseftirlit ASÍ fór á vettvang. Næstlægsta kílóverðið fannst á sömu vöru í Prís, 21% dýrari. Verðið í Prís var þó 5% lægra en tilgreint listaverð á vörunni í Nettó. Nokkru getur munað á lægsta kílóverði á andabringum. Í Nettó, Prís, Bónus og Krónunni mátti finna andabringur á undir 4 þúsund kr. á kílóið en verðið var hærra í Fjarðarkaupum (4.794 kr/kg) og Hagkaupum þar sem það var lægst á 5.396 kr/kg.
Töluverðar hækkanir á jólakjöti milli ára
Líkt og verðlagseftirlitið fjallaði um nýlega hefur verð á kjötvöru hækkað nokkuð milli ára. Að jafnaði hefur verð á kjötvöru hækkað um 6,6% og á lambakjöti um 8,6% milli ára samkvæmt mælingum verðlagseftirlitsins samanborið við 4% hækkun á dagvöru milli ára. Dæmi um hækkanir á algengum kjötvörum frá síðustu jólum:
Ali hamborgarhryggur með beini hækkar um 4% í Bónus (2.498 -> 2.598kr) og Krónunni (2.499 -> 2.599kr)
SS birkireykt hangilæri hækkar um 5,9% í Bónus (3.869->4.098kr) og um 5,4% í Krónunni (3.889 -> 4.099kr)
KEA léttreyktur lambahryggur hækkar um 5,5% í Bónus (4.879 -> 5.149kr) og Krónunni (4.880 -> 5.150kr)
Frosnar ungnautalundir frá Íslandsnauti hækka um 6,7% í Bónus (8.998 -> 9.598kr)
Gourmet kalkúnabringa í Krónunni hækkar um 21% (2.395 -> 2.899kr) og Ísfugls kalkúnahakk hækkar um 16% í Bónus (722 -> 839kr) og Krónunni (727 -> 840kr)
Fyrirvari
Könnunin var gerð í síðustu viku og voru verð á jólakjötvöru borin saman í Bónus, Krónunni, Prís, Nettó, Fjarðarkaupum, Hagkaupum, Kjörbúðinni og Extra. Í verðsamanburði er miðað við hilluverð sem neytandi hefur upplýsingar um í versluninni. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur/tilboðsverð af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Tilboð eru víða í matvöruverslunum nú fyrir hátíðarnar og verðbreytingar tíðar og geta neytendur nálgast nýjustu verð verðlagseftirlitsins í Nappinu eða í vöruleit á verdlagseftirlit.is
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

