Endurmenntunardeildir ríkisháskólanna Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri eru byrjaðar að auglýsa námskeið undir merkjum „sumarúrræða stjórnvalda“ sem eru ýmist gjaldfrjáls eða kosta 3.000 krónur. Námskeiðin eru niðurgreidd af fé skattgreiðenda og eru mörg hver í beinni samkeppni við námsframboð einkarekinna fræðslufyrirtækja. FA andmælir því harðlega að ekki skuli hafa verið hugað að áhrifum þessara námskeiða á samkeppni á fræðslumarkaði og hefur sent menntamálaráðherra erindi þess efnis. Samkeppniseftirlitið hefur jafnframt í dag, í framhaldi af kvörtun FA, sent menntamálaráðuneytinu bréf og brýnt fyrir ráðuneytinu að „huga fyrirfram að þeim samkeppnislegu áhrifum sem ákvarðanir og ráðstafanir ráðuneytisins geta haft.“
Félag atvinnurekenda kvartaði í fyrrasumar bæði til Samkeppniseftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA vegna niðurgreiðslu ríkisins á endurmenntunarnámskeiðum háskólanna, eftir að hafa sent menntamálaráðherra erindi vegna málsins. Hinn 13. apríl sl. sendi FA Lilju D. Alfreðsdóttur menntamálaráðherra nýtt erindi og spurðist fyrir um áformin um sumarnám í ár, m.a. hvort samkeppnisleg áhrif ríkisstyrkjanna hefðu verið metin og hvort stjórnvöld hefðu tekið afstöðu til hugmyndar FA um að úthluta styrkjum til sumarnáms með ávísanakerfi, sambærilegu ferðagjöf stjórnvalda, þannig að hægt væri að velja á milli námskeiða hjá háskólum sem njóta ríkisframlaga og námskeiða einkarekinna fræðslufyrirtækja.
FA hefur sent menntamálaráðherra þriðja erindið, þar sem lýst er mikilli furðu á þessum vinnubrögðum og að ráðuneytið skuli keyra áfram starfsemi sem kvartað hefur verið undan bæði til Samkeppniseftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA án þess svo mikið sem að virða einkarekin fræðslufyrirtæki og samtök þeirra svars. „Félagið andmælir þessum framgangsmáta harðlega og leyfir sér að óska svara ráðuneytisins þegar í stað við þeim spurningum sem settar voru fram í áðurnefndu erindi,“ segir í erindi FA.Engin svör í fimm vikur
Skemmst er frá því að segja að í fimm vikur hafa engin svör borist frá menntamálaráðuneytinu vegna erindis FA. Síðustu daga hafa HÍ og HA hins vegar auglýst grimmt tugi námskeiða undir merkjum sumarúrræða stjórnvalda. Á meðal þessara námskeiða eru mörg í beinni samkeppni við námsframboð einkarekinna fræðslufyrirtækja, t.d. námskeið í tölvunotkun og forritun, viðskiptum og stjórnun, samskiptum, verkefnastjórnun og lífsleikni svo dæmi séu tekin. Ekki verður annað séð en að flest námskeiðin séu öllum opin en ekki bundin við nemendur háskólanna eða atvinnuleitendur og er það raunar tekið sérstaklega fram á vef Endurmenntunar Háskóla Íslands.
Ekki of seint að gera breytingar
„Við fögnum þessu inngripi Samkeppniseftirlitsins, þótt það komi að okkar mati í síðasta lagi þegar ríkið hefur annað sumarið í röð ákveðið að fara í harða samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Einkarekin fræðslufyrirtæki fengu tvöfalt högg í heimsfaraldrinum; fyrst þýddu samkomutakmarkanir að þau urðu af miklum tekjum og í beinu framhaldi fóru ríkisstyrktir háskólar í niðurgreidda samkeppni við þau. Þessi vinnubrögð menntamálaráðuneytisins eru fyrir neðan allar hellur og menntamálaráðherra getur ekki verið þekkt fyrir annað en að gera breytingar þannig að sagan endurtaki sig ekki. Að okkar mati er ekki of seint að gera breytingar sem tryggja að einkarekin fræðslufyrirtæki taki þátt í sumarúrræðum stjórnvalda.“
Spurningar FA til ráðuneytisins
Eftirfarandi spurningum var beint til menntamálaráðuneytisins:
- Hefur ráðuneytið lagt mat á áhrif þess fyrirkomulags ríkisstyrkja til náms, sem viðhaft verður í sumar, á samkeppni á fræðslumarkaði?
- Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið af hálfu ráðuneytisins til að gæta að samkeppnisstöðu einkarekinna fræðslufyrirtækja og tryggja að ríkisstyrkur til háskólanna rúmist innan ákvæða laga um opinbera háskóla, samkeppnislaga og EES-samningsins?
- Hefur ráðuneytið tekið til skoðunar tillögu félagsins um ávísanakerfi, sambærilegt ferðagjöfinni, sem tryggi að hægt sé að velja á milli námskeiða hjá háskólum sem njóta ríkisframlaga og námskeiða einkarekinna fræðslufyrirtækja?
- Hefur útfærsla fyrirhugaðra ríkisstyrkja verið borin undir Samkeppniseftirlitið eða Eftirlitsstofnun EFTA?
Því til viðbótar spyr FA í erindinu sem sent var í dag: Með hvaða rökum hefur ráðuneytið öðru sinni ákveðið að beina ríkisstyrkjum til sumarnáms eingöngu til ríkisstyrktra háskóla?
Ríkisháskólar geri fjárhagslegan aðskilnað opinberan
Í áðurnefndu bréfi Samkeppniseftirlitsins til menntamálaráðuneytisins fer eftirlitið fram á að það beini því til ríkisháskólanna að þeir geri opinberlega grein fyrir því hvernig þeir haga fjárhagslegum aðskilnaði milli annars vegar þess rekstrar sem rekinn er að hluta til eða að öllu leyti fyrir opinbert fé og hins vegar þeirrar starfsemi sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila, sbr. 14. grein samkeppnislaga. FA og félagsmenn þess hafa einmitt gagnrýnt harðlega að slíkur aðskilnaður sé ekki uppi á borðinu. Félagið mun ganga á eftir því við ráðuneytið að það verði við þessum tilmælum Samkeppniseftirlitsins.
Erindi FA til menntamálaráðherra 13. apríl
Erindi FA til menntamálaráðherra 17. maí
Erindi Samkeppniseftirlitsins til menntamálaráðuneytisins 17. maí