Saksóknari í Danmörku hefur ákært 51 árs gamlan karlmann fyrir morðið á Freyju Egilsdóttur Mogensen í Malling í lok janúar.
Honum er gefið að sök að hafa þrengt að hálsi hennar, hlutað líkið í sundur og falið líkamshlutana í húsi hennar og garði. Saksóknari reiknar með stuttum réttarhöldum þar sem maðurinn hefur játað sök.
Þetta kemur fram í dönskum fjölmiðlum. Maðurinn og Freyja gengu í hjónaband fyrir átta árum en voru skilin og hún lætur eftir sig tvö ung börn. Rúv birti ítarlega frétt um málið en þar segir að maðurinn hafi tilkynnti lögreglu að Freyja væri týnd í byrjun febrúar. Lögreglu fór strax að gruna að ekki væri allt með felldu.
Grunsamleg frásögn
„Það voru fleiri atriði sem voru grunsamleg varðandi frásögn hans og þá hófst leit að konunni,“ sagði Michael Kjeldgaard, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austur-Jótlandi og fljótlega var maðurinn handtekinn.
Jesper Rubow, saksóknarinn í málinu, segir í yfirlýsingu að hann reikni með stuttum réttarhöldum. Maðurinn hafi játað sök þegar farið var fram á gæsluvarðhald yfir honum. „Þetta er mjög alvarlegt mál og nú er það dómstóla að ákveða refsingu.“
Maðurinn hefur áður hlotið dóm fyrir morð. Árið 1996 var hann dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að drepa barnsmóður sína. Hann stakk hana 18 sinnum. Danskir fjölmiðlar segja að Freyja hafi vitað af þessari fortíð mannsins“ segir á vef rúv.