Lagt er til að landsmenn hafi valfrelsi
Hópur þingmanna Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins vilja að greiðendum útvarpsgjalds verði heimilt að ráðstafa hluta gjaldsins til fjölmiðla að eigin vali, annarra en ríkisútvarpsins. Þetta er í fimmta sinn sem þingsályktunartillaga þess efnis er flutt á Alþingi en hefur aldrei náð fram að ganga. Fjallað er ítarlega um málið á Vísi.is og þar segir:
Tillagan felur í sér að menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra í samráði við fjármálaráðherra, leggi fram frumvarp sem kveði á um að greiðendur útvarpsgjalds geti sjálfir ráðstafað þriðjungi gjaldsins til fjölmiðla að eigin vali.
„Lagt er til að landsmenn hafi valfrelsi um ráðstöfun hluta þessa gjalds. Þannig geti þeir með framlagi sínu tryggt tiltekinn fjölbreytileika í rekstri fjölmiðla landsins. Með því að sitja eitt að þessum gjaldstofni hefur Ríkisútvarpið haft yfirburðastöðu gagnvart öllum öðrum fjölmiðlum, og gildir það um fréttaflutning sem dagskrárgerð. Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkismiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana,“ segir meðal annars í greinargerð með tillögunni sem dreift var á Alþingi í gær.