Í tillögu að breyttri fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024 er gert ráð fyrir 4,7 milljarða króna minna framlagi til sjúkrahúsþjónustu en í fyrri áætlun á tímabilinu og 7,9 milljörðum minna framlagi vegna örorku og málefna fatlaðs fólks, að því er fram kemur í gögnum sem mbl.is hefur undir höndum og greinir frá í dag.
Í heild verða útgjöld ríkissjóðs um 13 milljörðum minni árin 2020 til 2024 en fyrri áætlun gerði ráð fyrir. Þá segir Mbl.is jafnfarmt frá því að til þess að komast hjá hættu á fjárlagahalla hafi verið dregið úr fyrirætluðum greiðslum til þessara málaflokka og að einnig verði m.a ráðstafað 1,7 milljörðum minna til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, milljarði minna til almanna- og réttaröryggis og 1,7 milljarði minna til framhaldsskólastigsins.
Þá kemur fram að 2,6 milljörðum minna verði varið til lyfja og lækningavara, 2 milljörðum minna til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, 2,9 milljörðum minna til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina auk 1,4 milljörðum minna til umhverfismála. Þá er gert ráð fyrir 2,8 milljörðum minna framlagi til samgöngu- og fjarskiptamála.