Embætti héraðssaksóknara hefur nú til rannsóknar íkveikju í bíl lögreglumanns í Reykjavík. Kveikt var í bílnum við heimili lögreglumannsins í gærmorgun og samkvæmt heimildum fréttastofu beinist rannsóknin meðal annars að því hvort um hefndaraðgerðir hafi verið að ræða. Fjallað var um málið á vef ríkisútvarpsins og þar segir að:
Rannsókn mála sem þessara eru að öllu jöfnu á hendi viðkomandi lögregluembætta, en vegna eðlis málsins er það rannsakað sem brot gegn 106. grein almennra hegningarlaga sem kveður á um brot gegn valdstjórninni.
Þar segir meðal annars að hvers sem ræðst með ofbeldi eða hótunum á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verst allra frétta af málinu, en samkvæmt upplýsingum frá embætti héraðssaksóknara er rannsóknin á frumstigi. Meðal þess sem þar er lögð áhersla á er hvort íkveikjan tengist störfum lögreglumannsins. Enginn var í bílnum og engan sakaði.
Umræða