Frá 1. október nk. mun Vinnumálastofnun leigja Hótel Glym til hýsingar allt að 80 umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samsetning hópsins sem þar mun dvelja liggur ekki fyrir en skýrist er nær dregur. Leigutími er a.m.k. til 18 mánaða en allt að 24 mánaða. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hvalfjarðarsveitar.
Vinnumálastofnun tók yfir þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd 1. júlí 2022 og síðan þá hefur fjöldi í þjónustu stofnunarinnar þrefaldast og eru nú um 2.100 einstaklingar sem búa í húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar. Spár stofnunarinnar gera ráð fyrir að eiga þurfi pláss fyrir um 4.500 umsækjendur í lok árs en allt að 5.500 ef hæstu spár ganga eftir.
Vinnumálastofnun er með samning við Öryggismiðstöðina og veitir fyrirtækið sólarhrings viðveru í öllu húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar. Það er gert til að tryggja þjónustu og stuðning við þá sem dvelja í húsnæðinu hverju sinni og ef upp koma einhver atvik sé hægt að bregðast við hratt og vel. Starfsmaður Vinnumálastofnunar kemur jafnframt í húsnæðið tvisvar til fjórum sinnum í viku.
Vinnumálastofnun mun útvega og sjá um samgöngur milli Hótel Glyms og Akraness nokkrum sinnum í viku. Stofnunin er með samning við Rauða krossinn á Íslandi um virkni fyrir umsækjendur og óskað verður eftir slíkum úrræðum á staðinn. Stofnunin mun einnig kanna áhuga nærsamfélagsins á virkniúrræðum eða öðru er hentað getur inn í húsnæðið sem og að ræða við símenntunarmiðstöðvar/fræðslumiðstöðvar um virkni.
Vinnumálastofnun veitir umsækjendum þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda meðan þeir bíða úrlausnar sinna mála hjá Útlendingastofnun. Tryggir stofnunin umsækjendum framfærslu, aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf.
Á haustmánuðum mun verða boðað til kynningarfundar þar sem íbúum Hvalfjarðarsveitar gefst tækifæri á að kynna sér málið frekar sem og að leita svara hjá forsvarsmönnum Vinnumálastofnunar við þeim spurningum sem upp kunna að koma tengdu málefninu.
Tímasetning fundarins verður auglýst síðar.