Frá og með deginum í dag kostar að leggja í bílastæði við Háskóla Íslands. Gjaldskyldan er „fyrsta skrefið til að bæta umferð og umhverfi á háskólasvæðinu“, að því er segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands.
Nemendur og starfsfólk fá tækifæri út vikuna til að kynna sér nýtt fyrirkomulag á bílastæðum háskólans án þess að eiga á hættu að fá sekt. Ríkisútvarpið birti frétt um málið og þar segir einnig ,,Bílastæði við háskólann eru ætluð nemendum, starfsfólki og gestum. Stæðin eru annað hvort í áskrift fyrir starfsfólk og nemendur eða í boði fyrir alla gegn tímagjaldi.
Gjaldskylda er alla virka daga frá klukkan 7-17 og kostar klukkustundin 230 krónur. Ef ekki er greitt fær eigandi bíls rukkun í heimabanka samkvæmt tímagjaldi auk 2.500 króna þjónustugjalds. Nemendur og starfsfólk geta skráð sig í áskrift að langtímastæðum gegn mánaðarlegu gjaldi, 1.500 krónum, í appinu Parka.Samhliða þessum breytingum hefur Háskóli Íslands gert samning við Strætó um sérkjör á tímabilskortum í Strætó fyrir starfsfólk.“