Þetta er skellur!
,,Hann er stórvinsæll söngvari og lagahöfundur, farsæll fótboltamaður, myndarlegur og með fullkominn tanngarð“
Í ljós hefur komið að Jón Jónsson, söngvari og fleira er ekki eins fullkominn og hann lítur út fyrir að vera, Rúv greindi fyrst frá.
Fréttatíminn bar tíðindin undir einlægan aðdánda sem sagði þetta: ,,Þetta er bara skellur! Maður treysti á að þessi mikli meistari væri 100% fullkominn en svo kemur annað í ljós! Á hvað getur maður treyst þegar að fallegasta fólkið bregst?“ Sagði aðdáandinn og var greinilega verulega brugðið eftir lestur fréttarinnar.
Rúv hafði þetta um málið að segja: ,,Jón Jónsson þykir mörgum vera eitt best heppnaðasta eintak af manneskju á landinu. Hann er stórvinsæll söngvari og lagahöfundur, farsæll fótboltamaður, myndarlegur og með fullkominn tanngarð. Hann hljóp heilt maraþon í fyrsta sinn í síðasta Reykjavíkurmaraþoni og lenti í fimmta sæti af íslenskum keppendum.
En Jón Jónsson er þó, öfugt við það sem margir halda, ekki fullkominn. Hann ljóstraði upp um þetta í fyrsta þætti af Heilabrotum sem verður frumsýndur á RÚV annað kvöld. Heilabrot er sjálfstætt framhald af Framapoti sem var sýnt á síðasta ári en í þetta sinn er viðfangsefnið geðheilbrigði ungs fólks.
Í fyrsta þættinum verður rætt á almennum nótum um geðheilbrigði og þá miklu breytingu sem orðið hefur á allra síðustu árum og aukna umræðu. Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir og Steiney Skúladóttir fá vini og kunningja til að ræða málin og fara í bíltúr með foreldrum sínum til að útkljá atburði úr fortíðinni.
En er Jón Jónsson alveg örugglega ekki fullkominn? „Ég er alveg mjög viss,“ segir Jón með festu í málrómnum þegar Steiney spyr hann aftur. „Stundum er ég lítill í mér,“ heldur hann áfram. „En þá er svo gott að hafa gott fólk í kringum sig. Það þarf að tala um tilfinningar sínar.“ Er hann duglegur að því? „Já. Alveg klárlega.“
Heilabrot er sex þátta röð þar sem Steiney og Sigurlaug Sara fjalla um geðheilsu og greiningu á andlegri vanheilsu ungs fólks, en líkt og fjórða til fimmta hver manneskja á Íslandi hafa þær báðar glímt við andlegan vanda.“