Telur Festa það rétt að leggja nafn sitt við verðlaunaafhendingar á vegum SA?
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sendi í dag erindi til Tómasar Njáls Möller formanns Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð og Hrundar Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu. Tilefnið er þátttaka Festu í Hvatningarverðlaunum jafnréttismála á vegum Samtaka atvinnulífsins.
Í bréfinu vekur Sólveig athygli á afstöðu SA til brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði en samtökin hafa ekki sýnt baráttunni gegn launaþjófnaði og annarri brotastarfsemi á vinnumarkaði stuðning heldur þvert á móti talað hana niður.
Sólveig Anna spyr hvort Festa telji að framganga SA varðandi launaþjófnað og aðra brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði sé í samræmi við hugmyndafræði og viðmið Festu um samfélagsábyrgð og hvort að Festa telji það rétt að leggja nafn sitt við verðlaunaafhendingar á vegum SA.