SÓTTVARNIR SKATTLAGÐAR: YFIRLÝSING VARÐANDI MIÐAVERÐ Á JÓLAGESTI BJÖRGVINS 2020 OG REGLUR UM VIRÐISAUKASKATT Á TÓNLEIKA OG STREYMI
Eins og áður hefur komið fram munu Jólagestir Björgvins í ár verða í beinni úr Borgarleikhúsinu laugardaginn 19. desember og geta allir landsmenn keypt sér aðgang í gegnum „pay per view“ og streymi.
Það staðfestist hér með að miðaverðið er 3.900 kr. + vsk = 4.836 kr. Um er að ræða sérstakt forsöluverð, sem þýðir að þegar nær dregur mun verðið hækka en það verður tilkynnt síðar hvenær verðið hækkar og um hvað mikið.
Okkur er ekki heimilt að setja inn í auglýsingar verð án vasks, en viljum nota tækifærið og koma eftirfarandi á framfæri.
Eftir skoðun á skattalögum og reglum undanfarið virðist liggja fyrir að færsla á tónleikum yfir í pay per view og/eða streymi, veldur því að þeir eru skilgreindir í skattalögunum á sama hátt og streymisþjónustur á borð við YouTube, Spotify og Netflix. Tónleikahald, tónlistarmenn, leikarar og mestallur menningargeirinn er undanþeginn vaski en sú undanþága er s.s. ekki lengur til staðar, nú þegar allur geirinn vinnur að því hörðum höndum að færa sig yfir í streymislausnir um ófyrirsjáanlega framtíð.
Eins og allir vita er það gert af illri nauðsyn og vegna aðgerða stjórnvalda til að berjast við vírusinn. Enginn í menningargeiranum horfir fram á álitlegar fjárhagsláætlanir fyrir streymisviðburði, en þeir eru samt mun betri en að gera ekkert neitt, í kannski 6-12 mánuði í viðbót. Þetta er bókstaflega eina líflínan sem geirinn hefur þessa dagana en raunveruleg hætta er á því að þessi skilgreining í skattalögum valdi því að streymisviðburðir verði ómögulegir, að geirinn komist þar með ekki af stað og innviðirnir fari að skemmast. Ef geirinn gæti flutt sig núna hratt yfir í streymi, gæti það bjargað miklu.
Við ætlum eftir sem áður að kýla á Jólagesti Björgvins en þurfum að bæta vaskinum ofan á verðið sem við vorum búin að stefna á.
Og þá er komin upp sú staða að verð fyrir fyrirtæki og einstaklinga er í raun ekki það sama. Flest venjuleg fyrirtæki í rekstri fá innskattinn endurgreiddan og borga því í raun aðeins 3.900 kr. Viðbrögð fyrirtækja hafa hingað til verið gríðarlega góð og fjölmörg fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á að kaupa miða fyrir allt sitt starfsfólk, þrátt fyrir að við séum ekki búin að hefja beinar auglýsingar eða miðasölu og höfum ekki einu sinni staðfest miðaverðið fyrr en nú.
Við viljum því hér með hvetja öll fyrirtæki og starfsmannafélög landsins til að kaupa miða fyrir sitt starfsfólk, á 3.900 kr. + vsk og sameinast 19. desember á stærstu jólaveislu allra tíma!
Að lokum viljum við gefa eftirfarandi loforð: Ef svo ólíklega vildi til að ríkisstjórn bregðist hratt við þessu neyðarástandi og breyti lögunum í snatri, áður en við þurfum að gera upp tónleikana og skilum vaskinum til ríkisins, þannig að undanþága undir vaski gildi áfram, þótt um streymi / pay per view sé að ræða, þá lofum við því hér með að við skilum mismuninum til einstaklinga sem kaupa miða. Ef slík breyting nær í gegn í tæka tíð, þá sem sagt myndum við skila hverjum einstakling sem kaupir miða á 4.836 krónur aftur til baka 936 krónum.
Það skal tekið fram að við höfum engar upplýsingar um það að hvorki ríkisstjórn né aðrir séu að vinna í því að gera slíka breytingu, en auðvitað vonumst við til þess að þegar allir átta sig á þessari stöðu sem er komin upp, að þá verði brugðist við á einhvern hátt. Við þurfum líka að ganga úr skugga um að okkur sé heimilt að gera slíka breytingu eftir að sala hefst. En við viljum sem sagt gefa þetta loforð hér og nú; ef þessu er allt í einu breytt, eftir að sala er hafin, þá skilum við mismuninum, ef það er gerlegt og heimilt.
https://jolagestir.is/