Ökumaður slapp án teljandi meiðsla þegar bifreið endaði úti í sjó í Reyðarfirði neðan við Fáskrúðsfjarðargöng. Lúmsk hálka var á vegum á Austfjörðum í morgun að sögn Austurfrétta.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi varð atvikið laust fyrir klukkan átta í morgun. Svo virðist sem ökumaður hafi misst stjórn á bifreið sinni í hálku þegar hann var að koma út úr göngunum með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaðurinn komst út um afturglugga. Hann var kaldur og fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsinu í Neskaupstað. Unnið er að því að koma bílnum á þurrt.
Lögreglan brýnir fyrir ökumönnum að fara varlega. Talsverð hálka er víða á austfirskum vegum en hún sést illa þannig ökumenn gera sér ekki grein fyrir hættunni. Ekki hafa þó borist aðrar tilkynningar um óhöpp í morgun.
Höfundur: Gunnar Gunnarsson • Skrifaði fréttina á vef Austurfrétta